Skólavarðan - 01.01.2003, Page 24
Skólavarðan lagði nokkrar spurningar
fyrir Ingileifu Thorlacius fræðslufulltrúa
við Listasafn Reykjavíkur.
Fyrir hverja er safnfræðsla?
Við bjóðum upp á fræðslu fyrir alla, jafnt
unga sem gamla. Á hverjum sunnudegi er
leiðsögn fyrir almenna safngesti um sýn-
ingar á Kjarvalsstöðum og í Hafnarhúsinu.
Skólanemendum, allt frá leikskóla upp
í háskóla, býðst ókeypis leiðsögn um sýn-
ingar Listasafns Reykjavíkur og er leið-
sögnin sniðin að þörfum hvers hóps. Til-
gangurinn er að hjálpa nemendum að
verða betur læsir á myndlist og myndmál.
Jafnframt verði heimsókn á safnið bæði
innihaldsríkari og skemmtilegri upplifun
fyrir skólanemendur.
Hvernig fer heimsókn á safnið
fram?
Aldur og þroski nemenda ráða mestu um
hvernig við nálgumst sýningarnar hverju
sinni. Það á bæði við um hvaða verk eru
valin til umfjöllunar og um lengd leiðsagn-
ar. Leikskólabörn eru til dæmis oftast ekki
lengur en hálftíma inni á sýningu en
grunnskólanemendur eru um það bil eina
kennslustund, eða að hámarki klukkutíma.
Í fyrravetur byrjuðum við að nota aðferð
sem MOMA (Museum of Modern Art í
New York í Bandaríkjunum) hefur þróað
við leiðsögn um sýningar. Áhersla er lögð á
það sem nemendur sjá í myndunum og
hvernig þeir vilja sjálfir túlka þær. Sjónræn
upplifun þeirra, athyglisgáfa og hæfni til að
skilgreina það sem þeir sjá skiptir öllu máli.
Við spyrjum börnin spurninga en erum
ekki að leita að „rétta svarinu“ heldur eru
öll svör þeirra og túlkanir jafnrétthá.
Fræðsla um staðreyndir og listasögu er al-
veg látin liggja milli hluta nema krakkarnir
eigi sjálfir frumkvæði að því að spyrja slíkra
spurninga; þá er þeim auðvitað svarað.
Þessi aðferð hefur verið notuð þegar
leik- og grunnskólabörn koma í heimsókn-
ir í safnið og reynslan er að okkar mati
mjög skemmtileg. Viðbrögð kennara sem
við höfum heyrt í hafa verið jákvæð, enda
fær ímyndunarafl nemenda að njóta sín.
Engar tvær heimsóknir verða eins. Sumir
kennarar hafa haft orð á því að stundum
séu það aðrir nemendur sem blómstra
þegar þessari aðferð er beitt heldur en
venjulega í skólastofunum. Nemendur
framhaldsskóla og háskóla fá hins vegar
hefðbundnari fyrirlestur um sýningarnar.
Bæði er gert ráð fyrir að þeir séu lengra
komnir í skilningi sínum á myndmáli og
svo er reynslan sú að eldri nemendur eru
miklu tregari til að tjá sig fyrir framan stór-
an hóp.
Fyrir nokkrum árum var ákveðið að verk
úr sérsöfnum Listasafns Reykjavíkur, þ.e.
Ásmundarsafni, Kjarvalssafni og Errósafni,
skyldu alltaf vera aðgengileg. Þessi ákvörð-
un bauð upp á möguleika á að útbúa varan-
legra fræðsluefni fyrir börn en áður var
hægt með breytilegum sýningum og vanda
betur en áður til gerðar þess. Í kjölfarið
hefur safnið undanfarin ár verið með sér-
stök tilboð fyrir nemendur 4. og 6. bekkjar
grunnskóla sem og fyrir nemendur á ungl-
ingastigi:
- Nemendur 4. bekkjar koma í Ásmund-
arsafn og skoða sýninguna þar, vinna verk-
efni á safninu og fá svo með sér námsefnis-
hefti með texta og myndum af verkum Ás-
mundar.
- Nemendur 6. bekkjar koma á Kjarvals-
staði og skoða Kjarvalssýninguna og vinna
þar sambærilegt verkefni.
- Samskonar verkefni er hægt að gera á
Errósýningunni í Hafnarhúsi en það er
hugsað fyrir unglinga.
Listasafn Reykjavíkur hefur fjárveitingu
til að bjóða grunnskólum Reykjavíkur upp
á ókeypis rútuferðir fyrir nemendur 4.
bekkjar í Ásmundarsafn og 6. bekkjar á
Kjarvalssýninguna, sem hefur vissulega
gert þessar heimsóknir auðveldari fyrir
skólana.
Í vetur hafa allir grunnskólanemendur
sem koma með bekknum sínum í leiðsögn
fengið svokallað fjölskyldukort að gjöf.
Hugmyndin er sú að gefa börnunum sjálf-
um tækifæri til að bjóða fjölskyldu sinni
með á safnið og sýna þar með foreldrum og
systkinum hvað þau hafa lært. Kortið gildir
fyrir fjölskylduna í öll þrjú safnhúsin á ein-
um og sama deginum.
Er nauðsynlegt fyrir nemendur að fá
fræðslu hjá starfsmönnum safnsins um
sýningar? Er ekki alveg eins gott fyrir
þá að skoða sýningar með kennurum
sínum sem hafa oft góða þekkingu á
myndlist?
Kennurum er velkomið að haga heim-
sóknum þannig ef þeir vilja. Oft eru kenn-
arar sjálfir með eigin verkefni til að nota á
safninu. Við viljum samt fá að fylgjast með
því hvenær fólk ætlar að koma svo að
tryggt sé að ekki sé bókaður annar hópur á
sýninguna á sama tíma. Hinsvegar eru
starfsmenn safnsins búnir að kynna sér sér-
staklega þá listamenn sem sýna hverju sinni
með því að lesa sér til og jafnvel tala við þá
ef þeir eru tiltækir; þeir sjá því verkin oft
frá öðru sjónarhorni en kennararnir.
Við teljum að ferð nemenda á listasafn sé
ekki lúxus sem kennarar eigi einungis að
grípa til þegar brjóta á upp hefðbundið
skólastarf og gera eitthvað skemmtilegt
heldur séu slíkar ferðir mikilvægur þáttur í
allri myndmennt. Sá hluti af starfi okkar
sem snýr að nemendum er fyrst og fremst
ætlaður til að hjálpa þeim við að lesa
myndir og myndmál og verða þannig hæf-
ari til að taka á gagnrýninn hátt á móti öllu
því myndræna upplýsingaflóði sem dynur á
nútímafólki.
Hvernig bera kennarar sig að ef þeir
hafa áhuga á að heimsækja safnið og fá
leiðsögn fyrir nemendur sína?
Kennarar geta annars vegar hringt í
safnið í síma 590 1200 og beðið um
fræðsludeild eða sent tölvupóst á netfangið
fraedsludeild@reykjavik.is og pantað tíma.
Hámarksfjöldi miðast við einn bekk í einu
og best er að panta með góðum fyrirvara.
Safnfræðsla
26
Listasafn Reykjavíkur starfar í þremur
byggingum, Ásmundarsafn er við
Sigtún, Kjarvalsstaðir við Flókagötu
og Hafnarhúsið við Tryggvagötu en
það var tekið í notkun árið 2000. Við
Listasafn Reykjavíkur hefur verið
fræðsludeild frá árinu 1991, starfsfólk
hennar sér um leiðsögn um sýningar
í öllu safninu og tekur á móti hópum
nemenda og annarra sem óska eftir
að heimsækja safnið. Síðustu ár hafa
á bilinu tíu til tólf þúsund manns not-
ið leiðsagnar starfsfólks fræðsludeild-
ar safnsins árlega, að stórum hluta
skólanemendur sem hafa komið í
fylgd með kennurum sínum.
Erum ekki að leita
að „rétta“ svarinu