Morgunblaðið - 26.07.2016, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 26.07.2016, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 26. JÚLÍ 2016 Með árunum fækkaði sam- verustundum en Kristín lét sig þó sjaldan vanta á fundi og atburði á vegum Vg meðan heilsan leyfði. Þungbært var að vita af veikind- um hennar og fylgjast með þeim úr fjarlægð en hún átti góða að og margir hugsuðu hlýtt til hennar. Ég þakka Krístínu Halldórs- dóttur langa samfylgd, samstarf og vináttu, kveð hana með sökn- uði og sendi eiginmanni, börnum og fjölskyldu allri innilegar sam- úðarkveðjur. Steingrímur J. Sigfússon. Kristínu Halldórsdóttur kynntist ég fyrst vorið 1983 þegar hún var nýkomin inn á Alþingi í árdaga Kvennalistans. Reyndar þótti mér sem ég þekkti hana af bróður hennar, Halldóri bekkjar- félaga mínum í MA, og við systur hennar, Svanhildi, kannaðist ég frá því hún stóð fyrir kosninga- baráttu Vigdísar Finnbogadóttur í forsetakosningum þremur árum áður. Samstarfið við þingkonur Kvennalistans árin á eftir var um margt eftirminnilegt, en Alþýðu- bandalagið sem ég tilheyrði var þá komið í stjórnarandstöðu. Við Kristín fluttum saman þingmál tengt verðlagningu á raforku til stóriðju fyrsta haust hennar á þinginu og ljóst var að málefni féllu víða saman. Hún var formað- ur Ferðamálaráðs 1989-1993, en á þeim árum var unnið að mótun ferðamálastefnu og átti ég sem formaður stjórnskipaðrar nefnd- ar góð samskipti við ráðið undir hennar stjórn. Síðasta kjörtíma- bil okkar beggja á Alþingi 1995- 1999 áttum við bæði sæti í um- hverfisnefnd og þar reyndist hún öflugur talsmaður, setti sig vel inn í mál og fylgdi þeim eftir inn- an og utan þings. Þetta var síð- asta kjörtímabilið sem Kvenna- listinn átti fulltrúa á löggjafarsamkomunni og það leyndi sér ekki að samstaða innan hópsins var ekki lengur sú sama og fyrr. Í ársbyrjun 1999 gekk Kristín til liðs við þingflokk óháðra og Vinstrihreyfinguna grænt framboð sem þá var að búa sig í eldraun fyrstu þingkosninga um vorið. Það var sjálfgefið að Kristín færi fram í sínu gamla kjördæmi, Reykjanesi, og þegar til kastanna kom munaði aðeins hársbreidd að sjötta þingsæti listans kæmi í hennar hlut. Kraftar Kristínar nýttust eftir sem áður nýjum þingflokki VG þar sem hún gerðist starfsmaður jafnframt því að annast fram- kvæmdastjórn fyrir þennan nýja stjórnmálaflokk fyrstu árin. Skipti þar máli að hún gjörþekkti starfshætti og skipulag Alþingis eftir 10 ára þingsetu auk þess að hafa starfað þess á milli í 6 ár fyr- ir þingflokk Kvennalistans. Eftir langt og farsælt starf að þjóðmálum átti Kristín skilið að geta notið efri áranna við hlið manns síns og niðja. Örlögin hög- uðu því þó þannig að andlegir kraftar hennar þrutu langt fyrir aldur fram. Eftir lifir minning um farsælt og gott samstarf í tvo ára- tugi og liðsemd við málstað sem gjörbreytt hefur stöðu kvenna og um leið beggja kynja til betri veg- ar í íslensku samfélagi. Hjörleifur Guttormsson. Enn er höggvið skarð í þann hóp sem sat á þingi fyrir Samtök um Kvennalista. Kristín Hall- dórsdóttir er öll. Konur í Reykja- neskjördæmi leituðu til hennar til að taka fyrsta sæti á lista vorið 1983. Ekki var auðvelt að fá kon- ur til að taka sæti á listum þó fjöl- margar væru tilbúnar í ómælda vinnu en það vafðist ekki lengi fyrir Kristínu og var hún frá fyrstu stundu ötul baráttukona sem lagði óhemju mikið af mörk- um í kvenfrelsisbaráttunni. Krist- ín var ein af þremur konum sem fyrstar tóku sæti á Alþingi fyrir Kvennalista eftir kosningar 1983. Það var mikil ábyrgð lögð á herðar þeirra, væntingar og kröf- ur sem náðu langt út fyrir Kvennalistann voru gríðarlegar. Það var upp á líf og dauða fannst okkur, að þessar þrjár konur stæðu sig fyrir hönd allra kvenna, ekki bara Íslands heldur alls heimsins. Þetta var sögulegur viðburður á heimsvísu sem eftir var tekið. Þessum kröfum svör- uðu þær með sóma. Kristín sat m.a. í fjárveitingarnefnd og ávann sér, með vönduðum störf- um sínum þar í anda hinnar hag- sýnu húsmóður, virðingu langt út fyrir raðir Kvennalistans. Vorið 1987 var Kristín aftur kosin á þing en sat einungis í tvö ár vegna útskiptareglu Kvennalistans. Fyrir nýliðana sem komu á þing 1987 var ómetanlegt að fá að njóta leiðsagnar og hjálpar Krist- ínar sem hún veitti alltaf fúslega. Deildi allri sinni kunnáttu og færni af örlæti og ljúfmennsku. Alltaf tilbúin að gefa ráð, vísa veginn, en aldrei með þeim hætti að hún neytti yfirburða. Við sem sátum með henni á þingi þessi tvö ár söknuðum hennar sárt þegar hún hvarf þaðan. En hún fór ekki langt, og tók við sem starfskona þingflokksins og því var hægt að leita til hennar áfram. Í um- ræðum á Alþingi var oft framan af reynt að gera lítið úr Kvenna- listakonum og hugmyndum þeirra og fór Kristín ekki var- hluta af því. En það var eins og að stökkva vatni á gæs, hún hélt ótrufluð sínu striki. Það var ein- kennandi fyrir hana að halda ró sinni og festu hvað sem á gekk, hvort heldur var í þingsölum eða á fundum hjá Kvennalistanum þar sem stundum hvein í. Þó var hún hvorki skoðana- né skaplaus. Hún flanaði ekki að neinu, kynnti sér málin í hörgul og þegar hún hafði komist að niðurstöðu hagg- aði henni ekkert. Kristín var skemmtilegur félagi, stillt, jafn- lynd en gat svo sannarlega brugð- ið á leik og verið kvenna skemmti- legust. Þó hún væri oftast með báða fætur á jörðinni var há- punktur hvers landsfundar þegar Kristín stökk upp á borð, dansaði og söng Braggablús af sannri inn- lifun við mikinn fögnuð allra hinna. Ferill Kristínar var lengri og samfelldari en annarra Kvennalistakvenna. Hún talaði um tvö líf sín sem þingkona 1983- 1989 og 1995-1999 en þess á milli var hún starfskona þingflokksins. Allan þennan tíma helgaði hún kvenfrelsi og náttúruvernd krafta sína, flutti mörg þingmál, skrifaði greinar og flutti ræður innan- lands og utan. Íslenskar konur og kvenfrelsisbarátta eiga Kristínu mikið að þakka. Við sem sátum með henni á þingi og deildum lífi hennar og starfi í þágu kvenfrels- is minnumst hennar með virðingu og þökk. Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir. Um nokkurra ára skeið hafði þingflokkur Vinstri grænna skrif- stofur í Vonarstræti 12 sem nú stendur við Kirkjustræti. Þar var alltaf einstaklega gott andrúms- loft þegar ég tók að venja komur mínar þangað á árinu 2002. Mun- aði þar ekki minnst um fram- kvæmdastjóra hreyfingarinnar og starfsmann þingflokksins, þau Kristínu Halldórsdóttur og Stein- þór Heiðarsson, sem ávallt tóku á móti nýliðum eins og undirritaðri með bros á vör og opinn faðm. Nú þegar Kristín hefur kvatt okkur eftir löng og ströng veik- indi þá situr eftir minning um ein- staka manneskju. Hún var merk- ur stjórnmálamaður, frumkvöðull í starfi Kvennalistans og þing- kona fyrir þá hreyfingu en síðar í þingflokki óháðra. Hún barðist fyrir mörgum þjóðþrifamálum, m.a. á sviði umhverfismála, heil- brigðismála og jafnréttismála. Hagur barna og kvenna var henni ofarlega í huga sem og hagur hinna efnaminni. Síðar tók hún virkan þátt í undirbúningi að stofnun Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, leiddi lista hreyfingarinnar í Reykjaneskjör- dæmi 1999 og var þá hársbreidd frá því að komast inn á þing. Kristín sat í stjórn hreyfingarinn- ar og var síðar ráðin fram- kvæmdastjóri hennar. Á þessum bernskuárum Vinstrigrænna var álagið oft mik- ið og margt undir. Hreyfingin þurfti að sanna sig og standa und- ir nafni. Alltaf var Kristín ró- semdin ein, jákvæð og brosandi, og sá spaugilegu hliðarnar á til- verunni. Hún var einstaklega vin- sæl meðal félaga í hreyfingunni enda ávallt reiðubúin að sinna hverjum og einum. Og síðast en ekki síst hvatti hún fólk áfram með ráðum og dáð í hinu pólitíska starfi. Þannig var hún ekki ein- ungis frumkvöðull á sviði stjórn- málanna heldur einnig fyrirmynd okkar sem fetuðum í fótspor hennar. Margir geta þakkað henni hvatninguna. Það get ég að minnsta kosti. Spor Kristínar í íslenskum stjórnmálum eru djúp. Spor hennar í hugum okkar sem þekkt- um hana eru þó enn dýpri. Hún var ekki aðeins merkilegur stjórnmálamaður heldur merki- leg manneskja. Eftirlifandi manni hennar, Jónasi, og börnum hennar sendi ég mínar innileg- ustu samúðarkveðjur. Katrín Jakobsdóttir. Alþingiskosningarnar vorið 1983 mörkuðu kaflaskil í kven- frelsisbaráttunni. Þá gengu þrjár konur inn í Alþingishúsið undir merkjum Samtaka um kvenna- lista. Fjöldi þingkvenna fór úr þremur í sex. Kristín Halldórs- dóttir var ein þessara brautryðj- enda. Í byrjun tíunda áratugarins átti ég því láni að fagna að starfa náið með Kristínu í nokkur ár. Hún var í Austurstrætinu og hélt utan um þingflokk Kvennalistans og ég var á Laugaveginum að sinna samtökunum. Það voru nokkuð róstusamir tímar í Kvennalistanum, fyrst vegna EES og síðar vegna R-listans. Það reyndi á starfskonurnar en aldrei bar skugga á samvinnu okkar og húmorinn var aldrei langt undan. Kristín var alltaf reiðubúin að leiðbeina og ræða málin frá öllum hliðum. Hún var hlý og glaðlynd og í fari henni fyr- irfannst ekki tilgerð eða snobb. Veganesti Kristínar hefur nært mig alla tíð og fyrir það fæ ég aldrei fullþakkað. Mig langar í fáeinum orðum að rifja upp tvö tímamótaþingmál sem Kristín var fyrsti flutnings- maður að. Hið fyrra var fyrsta til- lagan sem Kvennalistinn fékk samþykkta á Alþingi. Tillaga um að kanna hvernig væri háttað rannsókn og meðferð nauðgunar- mála og gerðar tillögur til úrbóta. Samþykkt hennar árið 1984 lagði grunninn að neyðarmóttökunni og opnaði umræðu sem hafði aldrei áður farið fram innan veggja þinghússins. Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir því í dag hvers lags þáttaskil Kvennalistinn markaði í umræðunni um kynferðisofbeldi hér á landi. Það er ástæða til að halda þeim árangri á lofti og sofna ekki á verðinum eins og ný- leg dæmi sýna. Hitt þingmálið var tillaga Kristínar, fyrst flutt 1996, um varðveislu ósnortinna víðerna. Þar var lagt til að kortleggja ósnortin víðerni á hálendi Íslands og ráðast ekki í neinar fram- kvæmdir þar fyrr en að slíkri kortlagningu lokinni. Ég man þegar Kristín var að velta fyrir sér notkun orðsins víðerni sem nú hefur unnið sér verðskuldaðan sess í talmáli og landslögum. Til- löguna flutti Kristín nokkrum sinnum en hún var loks sam- þykkt, samhljóða, í mars árið 1999. Það var mikilvægt skref í náttúruverndarbaráttunni. Bar- áttan gegn virkjanaáformum við Eyjabakka og Kárahnjúka var nýhafin (hér er ekki ráðrúm til að rekja þá sorgarsögu) en framlag Kristínar til náttúruverndar á Ís- landi verður seint ofmetið. Kristín Halldórsdóttir var ein- stök kona og frábær fyrirmynd okkar hinna sem fetað höfum í fótspor hennar og annarra braut- ryðjenda úr röðum Kvennalist- ans. Hún vann pólitísk afrek sem lifa munu okkur öll. Fyrir þau þakka ég af heilum hug og geymi vináttuna í hjarta mínu. Þórunn Sveinbjarnardóttir. Kristín starfaði fyrir Kvenna- listann ýmist sem þingkona eða starfskona frá stofnun hans og þar til hann leið undir lok. Ég var tvisvar starfskona Kvennalistans, þegar best lét á velmektarárun- um 1985-1988 og svo þegar hreyf- ingin var að liðast í sundur og konur á leið í ólíkar áttir árin 1997-1999. Báðar tilheyrðum við Reykjanesanganum, báðar elsk- uðum við þessa hreyfingu. Kvennalistinn var að mínu mati einhver róttækasta og frum- legasta stjórnmálahreyfing sem Ísland hefur átt. Innan hreyfing- arinnar fór fram mikið starf. Það var starfandi þingflokkur og borgarmálahópur, starfsemi í kjördæmunum og í opinberum nefndum. Grasrótarstarfið var mikilvægt og tímaritið Vera var málgagnið okkar ásamt frétta- bréfinu. Það var starfað í ótal formlegum og óformlegum hóp- um um einstök stefnumál. Oftast ríkti gleðin ein og gíf- urleg hugmyndafræðileg gróska var ríkjandi. En stundum var auðvitað tekist á og konur skip- uðu sér í fylkingar um völd, leiðir og málefni. Þá reyndi á. Þá þurft- um við á að halda konum sátta og málefnalegra lausna. Kristín var slík kona. Hún gerði ekki tilkall til forystu eða persónulegra met- orða. Hún hafði hins vegar aðdá- unarvert lag á að vera alltaf trú sjálfri sér, málefnunum sem hún unni og Kvennalistanum og halda samt góðu sambandi við allt og alla. Virða ólík sjónarmið, leita sátta og þoka málum. Þegar rætt er um traust til Alþingis og þingmanna, er nafnið hennar Kristínar alltaf það fyrsta sem mér kemur í hug. Sjálfri þyk- ir mér einstaklega vænt um áhuga hennar og mikið framlag til umhverfismála og ekki síður virð- ingu hennar fyrir grasrótarstarf- inu. Hún ræktaði baklandið sitt af mikilli trúmennsku og sat alla fundi Reykjanesangans, enda naut hún óskoraðrar virðingar og trausts. Hún hlífði sér ekki og tók því oft að sér óvinsæla og erfiða málaflokka sem erfitt var að tengja við feminisma og voru ekki líklegir til þess að skapa henni vinsældir eða jákvæða athygli. Sem dæmi má nefna fiskveiðimál og efnahagsmál. Kristín var lokuð kona sem hleypti fáum að sér. En þegar hún tók sig til gat hún verið hrók- ur alls fagnaðar. Á góðum stund- um átti hún það til að vippa sér upp á borð og dansa af einskærri innlifun og fimi innan um leirtau og fundargögn. Ó hvað hún var þá dásamleg. Og stundum – bara alveg spari, gaf hún mér innsýn í líf sitt. Þá þorði ég varla að anda og sat graf- kyrr og hlustaði. Ég vissi að hún myndi ekki segja mikið, en ég elskaði það þegar hún sýndi mér trúnað og traust. Ég held að Kristín hafi verið einhver óumdeildasta og ástsæl- asta þingkona Kvennalistans. Hún var mér mikilvæg fyrirmynd og kær vinkona. Ég held að við eigum henni öll meira að þakka en við gerum okkur grein fyrir, því hún barði sér aldrei á brjóst. Ég sendi fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðj- ur. Guðrún Jónsdóttir. Engin okkar hafði þing- mennsku á stefnuskrá sinni í líf- inu en vorið 1983 urðum við Krist- ín Halldórsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir dálítið óvænt þing- flokkur. Kvennalistinn hafði verið stofnaður sex vikum fyrr og fram- boðið þetta vor var óvissuferð. Okkur tókst að bjóða fram í þremur kjördæmum af átta og náðum 5,5% fylgi. Kristín kom inn fyrir Reykjaneskjördæmið gamla en við Guðrún fyrir Reykjavík. Við þrjár þekktumst ekki mikið áður en við urðum þingflokkur en áttuðum okkur strax á að við urðum að vinna saman sem ein manneskja. Okkur tókst það svo vel að menn áttu til að segja þegar þeir ætluðu að nefna einhverja okkar „æ, hún Guðrún Dúna konan hans Jónas- ar“. Í þá tíð var varla hægt að vera kvenpersóna án þess að karl kæmi við sögu sem kennileiti og hélst það nokkuð enn. Það var auðvitað engin þing- reynsla í kvennahreyfingunni, við urðum að læra allt frá grunni og útfæra hugmyndir Kvennalistans í þingmál og svör í öllum mála- flokkum. Allt var í fyrsta sinn. Svo þurftum við að manna allar þingnefndir og tók Kristín að sér fjárveitingarnefndina sem var einna tímafrekust. Samvinna grasrótarinnar og þingflokksins var lykilatriði og það tók auðvitað tíma og svo vorum við þingkon- urnar á ferð og flugi um landið að stofna ný Kvennalistafélög. Það var því mikið að gera hjá okkur þessi fyrstu fjögur ár Kvennalistans á þingi og við fund- um til mikillar ábyrgðar. En allt tókst þetta vel. Í næstu þingkosn- ingum vorið 1987 gátum við boðið fram í öllum kjördæmum og lagt með okkur það fjögurra ára starf sem þegar hafði verið unnið. Það skilaði sér í tæplega tvöföldun fylgis og sex þingkonum. Þegar ég nú kveð Kristínu Halldórsdóttur, vinkonu mína, samstarfskonu og miklu meira í kvennabaráttunni fyrir rúmum þremur áratugum koma myndir í hugann. Ég sé hana hlaupa lang- leggjaða yfir pollana í Templara- sundinu úr Þórshamri út í þing- hús með skjalabunka í fanginu. Ég sé okkur þrjár þingkonur Kvennalista sitja saman í kaffi- stofu Alþings og gæða okkur á pönnukökum, punktandi eitthvað áríðandi niður á Melroses-te- pokabréf. Kristínu að hamra á rit- vélina í skrifstofunni sinni í Þórs- hamri en skrifstofan var á stærð við kústaskáp. Okkur var ekki beinlínis úthlutað hægindum á vettvangi Alþingis né fengum við frekar en aðrir þingmenn aðstoð við gerð frumvarpa eða samningu nefndarálita. Við gerðum þetta bara sjálfar. Kvennalistinn braut ísinn sagði Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis á hátíðarfundi þingsins 19. júní 2015 vegna 100 ára kosningaréttarafmælis kvenna. Hefðum við ekki haft út- hald og bein í nefinu til að mæta þeim kröfum sem til okkar voru gerðar hefði þetta íshögg orðið verra en ekki neitt. Ef okkur hefði mistekist hefði það orðið sönnun þess að konur ættu ekki erindi á löggjafarþingið undir sínum eigin formerkjum. Það var fjöreggið sem við þrjár gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að skila áfram óbrotnu. Vertu sæl, elsku Kristín mín. Við Friðrik vottum aðstandend- um innilega samúð. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Kristín Halldórsdóttir, móður- systir mín, er dáin. Kristín var alltaf kölluð Stína eða Stína frænka af okkur. Hún og móðir mín voru mjög nánar og ganga undir nafninu Varmahlíðarsystur þegar þær koma í heimahagana í Reykjadalnum. Fyrstu minningar mínar af Stínu frænku eru úr Varmahlíð. Amma bjó þar þangað til hún hætti að vinna og við dvöldumst þar fjölskyldan sumarmánuðina, með Stínu, Jónasi og frændsystk- inum okkar. Það var alltaf gam- an, amma stjórnaði liðinu og sá um mat og bakstur, systurnar sáu um börnin, þvotta og þrif. Mér fannst ég heppinn því ég átti tvær mömmur; mömmu og Stínu frænku. Ef umræður snerust að væntanlegu kvonfangi mínu þá vissi ég að mamma væri útilokuð þannig að Stína var fyrsta val. Alltaf hafði Stína frænka þol- inmæði með mér, sem vildi grall- arast og stjórnast með frændur mína. Þegar ég var átta ára var hún heima með Pétur nýfæddan og ég fékk að taka strætó nr. 3 á hverjum degi út á Nes eftir skóla. Þar lékum við Kristján okkur saman og stundum fékk Pálmi að vera með. Stína og amma sáu um að ég færi mér ekki að voða. Svo líður tíminn, maður eldist og hef- ur minna að gera með að hitta frænku sína. Við hittumst þó a.m.k. um jól og stundum í Varmahlíð ef dvalartímar rákust saman. Alltaf þegar ég hitti Stínu fann ég fyrir þeirri taug sem tengdi okkur saman. Þegar ég kvaddi Stínu frænku um síðustu jól í hinsta sinn held ég að hún hafi þekkt mig því eins og alltaf var hún glöð, innileg og hlý. Kæri Jónas, Kristján, Pálmi, Pétur og Dóra, því miður verðum við Kristín og Mímir Fróði á leið frá landinu þegar ævi og minning Stínu frænku verður heiðruð. Við verðum með ykkur í anda, von- andi færir það ykkur huggun og styrk að vita það. Óttar Arnaldsson. Með kærleik og virðingu Útfarar- og lögfræðiþjónusta Vesturhlíð 2 Fossvogi | Sími 551 1266 | útför.is Ellert Ingason Við erum til staðar þegar þú þarft á okkur að halda Við önnumst alla þætti undir- búnings og framkvæmd útfarar ásamt vinnu við dánarbússkiptin. Við þjónum með virðingu og umhyggju að leiðarljósi og af faglegum metnaði.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.