Dagblaðið Vísir - DV - 09.10.2015, Blaðsíða 34
Helgarblað 9.–12. október 201526 Fólk Viðtal
sínum málum. Það var léttir að segja
þetta upphátt.“
Afleiðingar eineltis
Á síðustu dögum hefur annað sam-
félagsátak farið af stað, en það mið-
ar að því að eyða fordómum gagn-
vart geðsjúkdómum og sýna fram
á fjölbreytileika þess hóps sem þeir
snerta á einhvern hátt. Salka birti
merkið #égerekkitabú á Twitter-
síðu sinni og færslu um að hún hefði
orðið fyrir einelti í æsku.
„Sú reynsla er líklega það sem
hefur haft hvað mest áhrif á mig
sem einstakling. Ég varð fyrir einelti
í grunnskóla og sat lengi uppi með
afleiðingarnar. Í raun leitaði ég mér
ekki hjálpar fyrr en í fyrra. Fram að
því var ég í afneitun gagnvart því að
ég þyrfti hjálp. Ég var ennþá með
hugmyndir um að ég hefði nú verið
skrítinn og hálfleiðinlegur krakki, var
þannig að kenna mér um það sem ég
lenti í. En það er aldrei þannig. Það
er ekki hægt að kenna fórnarlambi
eineltis um það sem það lendir í, rétt
eins og það er ekki hægt að kenna
fórnarlambi kynferðis ofbeldis um að
hafa lent í því.
Fyrir 4 eða 5 árum birtist mikið
af greinum þar sem fólk sagði frá
reynslu sinni og ég las þær allar
með tár í augunum. Ég fann samt
ekki þörfina fyrir að segja sjálf mína
sögu. Ég hélt oft að ég væri komin
yfir vanlíðanina, en svo komu til-
finningarnar alltaf upp aftur. Í fyrra
fór ég svo til sálfræðings sem hjálp-
aði mér og ég talaði upphátt við vini
og vandamenn. Ég er loksins búin að
vinna úr reynslunni. Reynslan gerði
mig samt sterkari. Við erum minn-
ingar okkar og reynslan gerir okk-
ur að því sem við erum. Fólki finnst
skrítið að ég hafi lent í þessu því ég
sé svona og hinsegin, en það skipt-
ir engu máli og alls konar fólk lend-
ir í einelti, maður er aldrei ástæðan
og einelti er aldrei manni að kenna.
Ég vona að umræðan verði til
þess að einhver þarna úti sem hef-
ur lent í einelti sjái að maður getur
komið sterkur út úr því. Umræðan er
svo mikilvæg, það þarf fræðslu um
hvað einelti er, stundum gerir fólk
sér ekki grein fyrir því að það sé að
leggja einhvern í einelti. Við þurfum
að horfa á gerendur. Maður kemur
ekki í veg fyrir kynferðisofbeldi með
því að laga manneskjuna sem verður
fyrir því – það sama á við um einelti.“
Álag á fjölskyldur
Salka er elst þriggja systkina, bræður
hennar eru 22 og 14 ára í dag. „Ég
passa vel upp á þá og við erum mikl-
ir vinir. Einstaka sinnum kemur upp
samviskubit hjá mér yfir því að hafa
þurft mikla orku og athygli frá for-
eldrum mínum þegar ég var að al-
ast upp. Það tekur á að eiga barn
sem lendir í einelti, eða á við önnur
vandamál að stríða eins og einhverfu
eða þunglyndi. Það er aldrei bara
einstaklingurinn sem veikist eða
verður fyrir áfalli heldur verður fjöl-
skyldan fyrir miklum áhrifum.
Það fór mikil orka hjá foreldrum
mínum í að leysa mína vanlíðan í
skólanum og það bitnaði á Hjálmari
Óla, bróður mínum, sem er fimm
árum yngri en ég. Við höfum rætt
þetta og hann er alls ekki sár og við
eigum mjög gott samband í dag,
erum í raun orðin jafnaldrar og um-
göngumst mikið og ræktum okkar
samband. Litli bróðir minn er með
einhverfu og þarf stuðning núna.
Þetta er svo endalaust breitt róf, hvað
svo sem kann að ama að, og það þarf
að finna lausn fyrir hvern og einn.“
Salka komst undan eineltinu með
því að skipta um skóla. „Skólaskiptin
voru besta lausnin á þessum tíma. Ég
er loksins búin að loka þessu máli.“
Passar upp á orkuna
Eftir að hafa heyrt um verkefnin
hennar Sölku velti ég fyrir mér hvort
hún verði aldrei orkulaus. Salka
hlær að þessum pælingum og segist
verða vör við að aðrir hafi mun meiri
áhyggjur af orkunni hennar en hún
sjálf.
„Ég hef svo gaman að öllu sem ég
er að gera. Vinnan verður aldrei að
kvöð og ég nenni henni alltaf. Mér
líður eiginlega ekki eins og sé að
mæta í vinnuna. Ég er samt dugleg
að minna mig á að vera þakklát því
þetta er ekkert sjálfgefið. Ég er búin
að vinna hörðum höndum að því að
koma mér í þessa stöðu og er bara of-
boðslega þakklát.“
Þegar við Salka töluðum saman
í símann kvöldið fyrir viðtalið, var
hún nýkomin úr tíma í hotjóga. Ég
ímyndaði mér að hún passaði upp á
að mæta í jóga oft í viku en svo er víst
ekki. „Selma Björns dró mig í þenn-
an tíma,“ segir Salka hlæjandi, „og ég
er að drepast úr harðsperrum í dag.
Ég hef nú alveg farið á námskeið í
Kramhúsinu í jóga og afró en er alls
ekki nógu dugleg. Það vill mæta af-
gangi hjá mér að stunda heilsu-
rækt. Ég hef samt alveg gaman af því
að hugsa um líkamann og reyni að
borða hollan mat þegar ég er svöng.
En ég er ekkert of upptekin af þessu.
Auðvitað þarf ég að passa upp á
röddina, hún er frekar við-
kvæm, fljót að fara en líka
fljót að koma aftur.“
Eins og aðrar listakonur
lendir Salka reglulega í því
að vera spurð út í klæða-
burð og snyrtibudduna
sína. „Ég er mjög þreytt
á þannig spurningum og
ákvað snemma að taka ekki
þátt í svoleiðis viðtölum í
fjölmiðlum. Auðvitað er í
góðu lagi að einhverjir geri
þetta, en ég er ekki í þeim
hópi. Þetta eru spurningar
sem strákar fá ekki. Ég var
til dæmis spurð um daginn
af hverju ég droppaði ekki
þessu hipsteralúkki og færi
að klæða mig aðeins meira
sexí. Mér finnst þetta mjög
bjánaleg nálgun því manni
getur alveg liðið sexí þó að
maður sé ekki klæddur í
efnislítil föt. Mér finnst gott
að vera í þægilegum fötum
og hef líka gaman af því að
punta mig, en ég vil ekki
að lífið mitt snúist um það.
Ég vil nota röddina mína í
annað.“
Femínistinn Salka
Þegar við Salka kynntumst fyrst vor-
um við komnar á trúnó eftir 10 sek-
úndur og duttum fljótlega í djúp-
ar femínískar umræður. Hún er
femínisti og er ekki feimin við hug-
takið.
„Ég hef alltaf verið femínisti þó
að ég hafi ekki alltaf þekkt hugtakið.
Mín trú og skoðanir eru allar í þá átt
og ég tengi mikið við hugmynda-
fræði femínismans. Ég var alin upp
til að verða sjálfstæð kona, sama að
hvaða leyti það er. Þegar ég áttaði
mig á að það væri til hugtak yfir mín-
ar hugsanir lá beint við að ég kallaði
mig femínista og ég geri það óspart.
Uppeldi mitt var allt á þessum nót-
um, hvort sem það var meðvitað eða
ómeðvitað hjá foreldrum mínum.
Þetta eru þeirra lífsskoðanir líka þó
að hugtakið hafi aldrei verið í for-
grunni.“
Hælar og gagnrýnin hugsun
Við höldum áfram að spjalla um
femínisma og stöðu kvenna á Ís-
landi. „Við erum búin að búa okkur
til svo fastar hugmyndir um það
hvernig konur eiga að haga sér. En
það eru margir hlutir sem við gerum
dags daglega sem má alveg setja
spurningarmerki við. Gott dæmi eru
háir hælar sem eru orðnir svo eðli-
legir á fótum kvenna að við erum
hætt að spá í hvað þeir í raun eru.
Þeir breyta líkamsstöðunni, rassinn
og brjóstin ýtast út, einmitt eins og
karlar vilja hafa konur, en eru líka
skelfilegir fyrir stoðkerfið. Það er al-
veg fáránlegt að það séu til starfs-
stéttir þar sem sú krafa er gerð að
konur séu á hælum.
Auðvitað mega konur vera á hæl-
um ef þær vilja, eða spila golf eða
hafa ótrúlegan áhuga á háreyðingar-
kremi, en að krafan sé þarna finnst
mér óeðlilegt. Þetta snýst í raun um
gagnrýna hugsun, að við munum
eftir því að setja spurningarmerki við
hluti sem við erum orðin samdauna.
Ég er mikil talsmanneskja þess að
fólk tileinki sér gagnrýna hugsun og
finnst helst að hana ætti að kenna í
grunnskólum. Ef við fáum krakka til
að muna eftir því að hugsa gagnrýnt
eru meiri líkur á að þeir verði að full-
orðnu fólki sem gerir það líka.“
Heillar pólitíkin?
Við Salka erum komnar á pólitískar
og hugmyndafræðilegar lendur.
Mér finnst þess vegna viðeigandi
að spyrja hana hvort hún sjái fyr-
ir sér að taka þátt í pólitík í framtíð-
inni. Svarið hennar er afdráttarlaust.
„Nei,“ segir hún og hlær, „ég fylgist
mjög vel með, bæði með heimspóli-
tík og því sem er að gerast hér heima.
Það er sérstaklega gott þegar ég er í
útvarpinu, þá vil ég vera með á nót-
unum. Ég hef sterkar skoðanir og er
alin upp við að maður kjósi. Ég hef
alltaf kosið því það er leiðin til að
hafa áhrif í samfélaginu.
Maður er kannski ekki alltaf sam-
mála kerfinu eða fyrirkomulaginu,
en þetta er það sem við búum við
og þá er það skylda manns að nota
tækin sem eru í boði til að hafa
áhrif. Ég tel mig vita hvað mamma
og pabbi kjósa en þau hafa aldrei
sagt það upphátt og troða ekki sín-
um skoðunum upp á okkur systkin-
in. Þeim finnst mikilvægara að við
myndum okkar eigin skoðanir og
séum þátttakendur í umræðunni.
Svona lærði ég gagnrýna hugsun.“
Hljóðfæranörd
Við færum okkur aftur á persónu-
legar nótur og ég spyr Sölku að því
hvort hún eigi sér önnur áhugamál
en tónlistina. „Tónlistin er mjög ríkj-
andi í lífi mínu. Ég er til dæmis algjör
hljóðfæranörd og get eytt mörgum
klukkutímum í hljóðfæraverslun-
inni á Klapparstíg. Svo linni ég ekki
látum fyrr en ég er búin að læra að
spila á hljóðfæri sem ég fæ áhuga
á. Ég spila á fimm hljóðfæri í sýn-
ingunni í Þjóðleikhúsinu. Ég á samt
fleiri áhugamál og þó að ég sé fé-
lagslynd passa ég alltaf upp á að eiga
reglulega stefnumót við sjálfa mig.
Þá get ég dottið í heimildamynd-
ir eða alls konar Youtube-vídeó um
allt frá samsæriskenningum og að
prinsessukökubakstri. Mér finnst
líka gott að liggja lengi í baði og vera
í þægilegum jogginggalla að dunda
mér heima.“
Rás 2 malar í bakgrunninum á
meðan við Salka spjöllum saman.
Allt í einu birtir yfir henni og hún
bendir á útvarpið, „hei, það er verið
að spila lagið mitt,“ segir hún áköf,
„það er komið í 9. sæti vinsældalista
Rásar 2.“ Salka er að tala um lagið Á
annan stað, sem er titillag sýningar-
innar um Hróa hött.
Salka er á góðum stað. Hún býr
á Baldursgötunni og lífið leikur við
hana. Ég spyr hana hvort sé ríkj-
andi í lífi hennar, óreiða eða róman-
tík. „Kannski sitt lítið af hvoru,“ segir
Salka og dularfullt bros breiðist yfir
andlit hennar, „ég vil samt ekki tala
mikið meira um það núna en lífið er
ofsalega gott.“ n
Endalaus orka? Sölku finnst eins og aðrir hafi meiri áhyggjur af orkunni hennar en hún sjálf.
„Ég vona
frekar
að ég sé fyrir-
mynd á annan
hátt – að
krakkarnir sjái
sterka konu
í karllægum
heimi. Ég er
ófeimin við að
vera ég sjálf og
segja það sem
ég er að hugsa.
loksins á
Íslandi!
Verslun og Viðgerðir
Hjól aspret tur ︱ Dal sHr aun 13 ︱ 220 Hafnarfjörður ︱ s ími: 565 2292 ︱ w w w.Hjol aspret tur. is