Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Blaðsíða 7
TMM 2006 · 2 7
Ljóð eru alltaf í uppreisn
Viðtal við Sigurð Pálsson
Sigurður Pálsson er einn þekktasti og afkastamesti starfandi rithöfund-
ur á landinu. Hann var hluti af hinni öflugu ljóðbylgju á miðjum átt-
unda áratug síðustu aldar og vinnur nú að þrettándu ljóðabók sinni sem
væntanleg er í haust. Auk þess hefur hann sent frá sér þrjár skáldsögur,
þýtt ein tuttugu verk af ýmsum toga og samið allmörg leikrit, nú síðast
hið geysivinsæla verk um franska söngfuglinn Edith Piaf sem sýnt var
tæplega hundrað sinnum fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu frá vori 2004
og fram undir jól 2005.
Eins og fram kom á fjörugu og fróðlegu ritþingi um Sigurð í Gerðu-
bergi vorið 2001 var æska hans um margt óvenjuleg, næstum eins og
hann væri kynslóð eða tveimur eldri en hann er. Faðir hans, Páll Þor-
leifsson, var prófastur á Skinnastað í Axarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu
þegar Sigurður fæddist, 30. júlí 1948, og þar ólst hann upp, yngstur
fimm systkina. Það var barnaskóli í sveitinni en Sigurður lærði aðallega
heima í foreldrahúsum allt fram að landsprófsvetri sínum. Þá fór hann
til Reykjavíkur og byrjaði loks í skipulögðu skólanámi, fjórtán ára. Nest-
ið að heiman entist honum svo vel að hann varð stúdent frá Menntaskól-
anum í Reykjavík tæpra nítján vetra, ári á undan sínum jafnöldrum.
Eftir stúdentspróf fór hann til framhaldsnáms í Frakklandi, fyrst í
Toulouse í nokkra mánuði og síðan í París, eins og skýrt má sjá í ljóðum
hans, leikritum og sögum.
Sigurður vakti snemma athygli skólafélaga sinna fyrir skáldskap, og
við byrjum spjallið þar.
Ekki ég en samt frá mér komið
Hvenær vissirðu að þú værir skáld og hvernig tókstu þeirri uppgötvun?
„Að ég væri ljóðskáld kom yfir mig algerlega mér að óvörum þegar ég
var í þriðja bekk í menntaskóla,“ segir Sigurður. „Ég var ári á undan í