Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Blaðsíða 66
E r n a E r l i n g s d ó t t i r
66 TMM 2006 · 2
sést greinilega að ekki er nauðsynlegt að karlmaður haldi á penna til að
fram streymi karllæg sýn á konur. Sem dæmi má nefna þá lífseigu hug-
mynd sem birtist strax í byrjun bókarinnar að manneskja verði ekki
kona fyrr en karlmaður hefur „vakið“ hana.
Ýmsir íslenskir höfundar hafa blandað saman þjóðfélagslegri skáld-
sögu og glæpasögu. Súsanna ætlar sér aðra leið, a.m.k. var bókin kynnt
sem erótísk spennusaga. Það reynist þó rangnefni því hún er alveg ósexí
og ekki heldur spennandi. Hasarinn verður allnokkur undir lokin en
vægast sagt klisjukenndur – það var t.d. erfitt að komast hjá því að skella
upp úr þegar illmennið sagði ógnandi við söguhetjuna undir lok bók-
arinnar: „Þú veist of mikið. Þú verður að hverfa.“ (322)
Þriðja táknið er fyrsta glæpasaga Yrsu Sigurðardóttur en áður hefur
hún gefið út stórskemmtilegar barnabækur. Þriðja táknið hefur marga
kosti en undarlegt er að óljóst er hvert táknið í bókartitlinum er. Ef það
kemur einhvers staðar fram ber lítið á því. Fleiri gloppur draga bókina
niður, ekki síst ýmsar staðreyndavillur. Þær skipta reyndar ekki allar
máli, til dæmis gerir ekki til þótt staðhættir í Árnagarði komi ekki heim
og saman við veruleikann, sumt af því þjónar tilgangi í frásögninni eins
og þjófavarnakerfið sem haft er í húsinu í bókinni. Verra er að grunn-
urinn undir því hvers vegna sumar persónurnar eru þar sem þær eru
gæti ekki átt við rök að styðjast.9 Sem dæmi má nefna að sá myrti, Har-
ald Guntlieb, er sagður hafa lokið BA-prófi í sagnfræði frá háskólanum
í München en BA-próf hefur ekki tíðkast í þýskum háskólum og þótt
sums staðar sé verið að taka það upp um þessar mundir á það ekki við
um sagnfræðinám í München eins og augljóst er á heimasíðu skólans.
Hægur vandi hefði átt að vera að komast hjá gloppum af þessu tagi og
fyrrnefnt dæmi er sérlega undarlegt ef horft er til þess að við markaðs-
setningu bókarinnar var mikil áhersla lögð á sölu útgáfuréttar erlendis.
Fróðlegt verður að sjá hvernig farið verður með atriði sem varða þýskt
menntakerfi ef bókin verður þýdd á þýsku.10
Meginþráður sögunnar er hins vegar prýðilega spunninn, bókin er
býsna spennandi og aðalpersónan, lögfræðingurinn Þóra, geðþekk.
Gaman gæti verið að sjá meira til hennar. Þegar haft er í huga að þetta
er fyrsta glæpasaga Yrsu má bókin teljast ágætlega heppnuð.
Einum glæpasagnahöfundi tekst óvenju vel upp í fyrstu skáldsögu
sinni í fullri lengd, Jóni Halli Stefánssyni sem sendi frá sér bókina
Krosstré á síðasta ári.11 Plottið hefur löngum verið veikur hlekkur í
íslenskum skáldsögum, jafnt glæpasögum sem öðrum, þannig að það er
sérstakt fagnaðarefni hversu vel fléttuð bók Krosstré er. Jón Hallur dreg-
ur morðingjann ekki upp úr hatti undir lokin heldur hefur hann verið á