Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Blaðsíða 104
S t e l l a S o f f í a J ó h a n n e s d ó t t i r
104 TMM 2006 · 2
Lokaorð
Þótt Halldóra fullorðnist gleymir hún ekki æskunni og ævintýrum
hennar. Hún miðlar henni til afkomenda sinna í þeirri von að fortíðin
verði ekki gleymskunni að bráð eins og fortíð kvennanna í kringum
hana. Raddir uppalenda hennar fá að heyrast og lífsreynslu þeirra og
sjálfsmynd er miðlað upp að vissu marki, eins og Halldóra hefur for-
sendur til, í gegnum textann. Þannig verður hann margradda jafnvel
þótt þetta sé ævisaga einstaklings.
Sjálfsævisaga Halldóru B. Björnsson fylgir ekki uppskriftinni að
vinsældum eða metsölu. Í henni eru engin meiriháttar átök, nema þá
helst á milli barnanna. Sagan fellur þó að vissu leyti að módelinu sem er
komið frá Játningum Rousseaus og Ágústínusar. Ágústínus sagði frá
falli, frelsun og upprisu (Soffía Auður Birgisdóttir 2001: 161), sams
konar atvik upplifir Halldóra í æsku sinni þótt þau eigi kannski ekki
margt sameiginlegt með falli, frelsun og upprisu Ágústínusar. Halldóra
fellur þegar hún blótar, tannmissirinn sem fylgir er refsingin og enn er
henni refsað þegar hún þarf að sitja inni og prjóna á meðan aðrir leika
sér úti. Uppreisn æru fær Halldóra þegar hún heimsækir Afabæ og hefur
komist í gegnum rulluna sem Pabbi lét hana æfa. Undir lok heimsókn-
arinnar er hún aftur orðin söm.
Í síðasta kafla bókarinnar er hnykkt á þessu þegar Halldóra fer að
leita hestanna ásamt bróður sínum og kannar lönd sem ekki eru ímynd-
uð heldur lengra í burtu en hún hafði áður farið ein.
Líkt og Játningar Rousseaus er Eitt er það land þroskasaga; líkt og
hann skoðar Halldóra barnæskuna. Rousseau gerir það til að útskýra
persónugerð sína (161), en Halldóra segir sögu sína fyrst og fremst til að
leyfa þögguðum röddum, sem höfðu hugsanlega ekki heyrst áður, að
hljóma. Forsendurnar eru ekki átök eða hörmungar, ofbeldi eða mis-
notkun eins og er svo algengt nú til dags, heldur er aðalforsendan ein-
faldlega sú að hún vill ekki að fortíðin gleymist, hversu lítilfjörleg sem
hún getur verið í augum annarra.
Þannig er Eitt er það land dæmigert fyrir höfundarverk Halldóru B.
Björnsson sem einkenndist af sjaldheyrðum eða þögguðum röddum.
Halldóra veitir röddum formæðra sinna til áheyranda síns, rétt eins og
hún veitti ljóðskáldum frá fjarlægum löndum og fornum kvæðum inn í
bókmenntalíf Íslendinga í öðrum verkum sínum.