Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Blaðsíða 42
E i r í k u r Ö r n N o r ð d a h l
42 TMM 2006 · 2
minnir helst á einhverja létt misheppnaða brandaraheimasíðu. Í krafti
lengdar sinnar verður brandarinn – sem er auðvitað bara einn, þó hann
birtist í mörgum myndum – alveg stórkostlega þreytandi, og að ein-
hverju leyti má segja að bókin sé bautasteinn algerlega óþolandi húmors,
eins og leiðinlegur frændi sem fæst ekki til að halda kjafti eða fara heim
til sín.
Næst á eftir Head citations kemur áðurnefnd Day, og síðasta bók
Kenneths, Weather, kom út í fyrra og er einfaldlega uppskrifuð 60 sek-
úndna veðurspá á útvarpsstöðinni 1010 WINS í eitt ár. Henni er skipt
niður í vetur, vor, sumar og haust, og þegar best lætur ná lýsingarnar
stórkostlega ljóðrænum hæðum:
Og við sjáum dálitla sólargeisla skjótast út undan skýjunum nú seinnipartinn.
Í heildina tekið ekki slakur eftirmiðdagur, nokkrir rokblettir, reyndar við JFK
eru vindar, uh, norðanátt, sautján mílur á klukkustund upp í tuttugu og tvær á
klukkustund í rokunum núna. Veðrið verður grimmara í fyrramálið, nú, skýin
aukast á morgun, það gerist á undan stormi sem færir okkur sex til tólf tommur
af snjó síðar annað kvöld og fram á daginn mánudag.10
Ljóðlist Kenneths Goldsmith er sérkennilega persónuleg í ljósi þeirra
aðferða sem hann beitir, og fjarlæg nærvera höfundarins sem milliliðar
er beinlínis þrúgandi. Sérkennilegastur er lestur Soliloquy, því að á sama
tíma og lesturinn kveikir tilfinningu fyrir kæruleysislegri og hversdags-
legri nærveru þá er verkið sjálft mjög þurrt textaverk sem gerir það að
verkum að lesturinn verður merkilega mótsagnakenndur. Reyndar eru
þeir sjálfsagt afskaplega fáir sem hafa lesið heila bók eftir Goldsmith, því
þó bækurnar hafi reyndar notið gríðarlegra vinsælda þá gera þær ekki
nokkra kröfu um það að vera lesnar ofan í kjölinn – sem svo auðvitað
aftur ýtir undir annarlega lestrarreynsluna. Sjálfur segist Kenneth vera
leiðinlegasti höfundur sem nokkurn tímann hafi verið uppi. „Ef það
væru haldnir Ólympíuleikar í öfgakenndum leiðindum þá fengi ég gull-
ið. Það er ómögulegt að lesa bækur mínar. Þegar ég les prófarkir bóka
minna, þá satt best að segja sofna ég ítrekað. Það er alger óþarfi að lesa
bækur mínar til að átta sig á þeim, það er nóg að fá nasasjón af hug-
myndunum“, sagði Kenneth í ritgerð sinni Being boring.11 Reyndar fer
því fjarri að það sé það sama að heyra hugmyndirnar og að lesa bæk-
urnar, ljóðlist Kenneths er svo sannarlega læsileg þó hún sé þreytandi og
þó verkin séu svo gríðarlöng og einhæf að maður þyrfti að vera hálf-
geðveikur að ætla sér að lesa þau spjaldanna á milli.
Kenneth hefur sjálfur bent á, í ritgerðinni sem nefnd er hér að ofan,
að stór hluti alls þess sem fólk gerir í seinni tíð felist í því að flytja upp-