Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Blaðsíða 23
L j ó ð e r u a l l t a f í u p p r e i s n
TMM 2006 · 2 23
endast, og fyrstu bækurnar mínar voru prentaðar í eitthvað milli
fimmtán og sautján hundruð eintökum. Samt seldust þær upp, svo
kirfilega að það er engin leið einu sinni að fá þær á fornsölum.
Það voru þessi slys sem gerðu að verkum að ég gat einhvern veginn
ekki hugsað mér að vera áfram hjá Máli og menningu. Það greip mig svo
mikið öryggisleysi. Þess utan höfðu verið átök og uppákomur í fyrirtæk-
inu árin á undan, ég veit reyndar farsællega lítið um það allt og vildi
ekki setja mig inn í það, en staðreyndin var sú að Sigfús, minn gamli
útgefandi og átrúnaðargoð, hann var þarna ekki lengur. Hins vegar vildi
ég síst af öllu koma frænda mínum illa en eftir þetta áfall var ég bara of
skekinn og öryggislaus. Kannski var bjánaskapur af minni hálfu að
komast ekki yfir þetta en svona var það. Mér fannst einhvern veginn
bara heiðarlegra að fara annað og það gerði ég með næstu bók. Tveim
árum seinna kom Ljóð vega gerð, eina bókin sem kom út hjá Iðunni. Þá
var Jóhann Páll Valdimarsson ennþá þar en stofnaði svo Forlagið þar
sem næstu bækur mínar komu út. Hjá honum hafa allar síðari bækur
mínar komið út, hvað svo sem útgáfan hans hefur heitið og hvert sem
eignarhaldið á fyrirtækjunum hefur verið. Ég hef fylgt honum einum
fjórum sinnum út í eyðimörkina.“
„Ansans ári er Sigurður gott ljóðskáld!“ (Ólafur Jónsson, DV 11.7. 1983)
Á þessum árum sem Sigurður er að rifja upp hefur ýmislegt gengið
yfir bókaútgáfuna í landinu. Verst var að hans mati árið 2000 þegar
önnur skáldsaga hans, Blár þríhyrningur, kom út. Það var ár sameiningar
Máls og menningar og Vöku-Helgafells í stórveldið Eddu útgáfu, Jóhann
Páll gekk þá út úr samstarfi við Mál og menningu sem staðið hafði um
tíma og var kominn með sína útgáfu í skjól ættfræðifyrirtækisins
Geneologia Islandorum, og samkeppnin við nýja risann var hatrömm.
Enginn gat ógnað þessu nýja forlagi annar en Jóhann Páll, segir Sigurður,
og það voru svo mikil átök á útgáfumarkaðnum að það minnti á kalda
stríðið í stjórnmálum og menningarmálum. Allt í einu skipti höfuðmáli
hvar bók kom út – þó að auðvitað skipti það eitt máli að hún kæmi út.
Sigurði finnst þegar hann lítur til baka að þetta hafi verið ömurlegt ár,
en strax 2001 stofnaði Jóhann Páll JPV-útgáfu á eigin vegum.
Ferðir og fyrirheit
Þegar þú horfir á þessa fjóra ljóðabókabunka hérna á milli okkar, finnst
þér þá vera munur á áferð, inntaki, hugsun í þeim?