Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Qupperneq 125
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 125
vera svolítið sniðugir og fyndnir. Í stuttu máli: þeir ættu að verða borgaralegir.
Þessi kynslóð lét sig t.d. ekki muna um að gera stólpagrín að Þórbergi Þórðar-
syni af því að hann hafði brennandi hugsjónir, en engin af þeim rættist. Undan-
farin misseri hefur pendúllinn kannski sveiflast meir í átt til uppreisnargirni
og ofsa, nýir og ungir höfundar komu fram á sjónarsviðið sem höfnuðu kald-
hæðni og ákváðu að í staðinn skyldu þeir verða alveg ofboðslega reiðir og
kröftugir í listsköpun sinni til að sýna að þeir hafni borgaralegum gildum.
Í skáldsögu sinni, Hinum sterku, hafnar Kristján Þórður Hrafnsson báðum
þessum hneigðum, enda eru þær ef til vill báðar fremur ódýrar lausnir.
Rauntími þessarar sögu er stuttur, og skiptist bókin öll niður í þrjá megin-
kafla, föstudagskvöld, laugardag og laugardagskvöld. Frásögnin er nær öll
bundin við vitund aðalpersónunnar sem flakkar stanslaust um í tíma og rúmi,
endurmetandi reynslu sína, reynandi að þvinga merkingu úr liðnum atburð-
um. Þetta er ung og heillandi kona sem stýrir sjónvarpsþætti um dægurmál og
nýtur velgengni sem slík, en merkilegt nokk þá fá lesendur aldrei að vita nafn
hennar þó hún sé opinber persóna.
Meginkaflarnir eru svo brotnir upp í ótal smærri kafla, jafnvel ekki lengri en ein
málsgrein. Hugsanlega var óþarfi að brjóta textann svona upp og skjóta inn öllum
þessum kaflaheitum, og hefði kannski verið betra að leyfa honum bara að flæða
óhindrað. Svona fyrirsagnir rjúfa tengsl lesandans og textans og því getur til-
veruréttur þeirra verið hæpinn (sbr. ‘Aeolus’ kaflann í Ódysseifi eftir Joyce). Á móti
kemur að oft er þægilegt að lesa texta sem tekur sér pásur með þessum hætti.
Fyrsti smákaflinn er í lengra lagi, enda mikilvægur. Þetta föstudagskvöld fer
hin ónafngreinda kvenhetja að hitta fyrrverandi tengdaföður sinn á veitingastað.
Sá er gamall og landsfrægur poppari af sextíu og átta kynslóðinni, en hann er líka
nafnlaus. Þau ræða um son hans og fyrrverandi kærasta hennar sem hét Ómar
og er nú látinn. Fyrir dauða hans eignaðist unga parið drenginn Kalla, sem nú er
um það bil tveggja og hálfs árs. Popparinn hefur dvalið erlendis árum saman. Nú
hefur hann snúið aftur heim og vill fá að umgangast sonarson sinn. Helst vildi
unga konan ekkert af þessari gömlu rokk-kempu vita: „Hún hafði helst viljað
segja að hún væri upptekin alla helgina, hún gæti ekki komið. Þau höfðu ákveðið
laugardaginn.“ (bls. 11) Ástæður hennar eru lesandanum ókunnar á þessu stigi
málsins, en hún stendur ekki uppi í hárinu á honum – a.m.k. ekki strax. En þegar
þau mætast aftur í lok bókarinnar hefur mikið vatn runnið til sjávar, og sjón-
varpskonan knáa hefur þá fundið þann styrk sem hana skorti áður.
Hinir sterku er bók um sálfræði og hugmyndafræði. Hvoru tveggja gerir hún skil
á vitsmunalega fullnægjandi hátt. Stíllinn er lágstemmdur, laus við tilgerð og alls-
gáður, næstum óþægilega hreinskilinn í lýsingum sínum á tilfinningum fólks.
Texti bókarinnar er hugmyndafræðilegur vígvöllur þar sem tvö andstæð
grundvallarsjónarmið takast á. Það er freistandi að segja að þessi tvö sjónarmið
séu annars vegar einstaklingshyggja og hins vegar félagshyggja, en kannski er
of grunnt í árinni tekið að grípa til þessarra pólitísku hugtaka. Höfundur er
frekar að fjalla um hugarfar fólks en stjórnmálastefnur. Hins vegar geta stjórn-
málastefnur verið birtingarmyndir þessa hugarfars, og í sögunni er nýfrjáls-