Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Síða 127
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 127
Hinir sterku er ágætlega skrifuð bók, þó fyrir komi vandræðalegar setningar.
T.d. segir kvenhetjan okkar á bls. 172: „ – Ég var að heyra að það hefði komið
upp sú hugmynd að taka upp afmælið þitt út af sjónvarpsþætti sem er verið að
gera um þig?“ En hér sem víðar reynir höfundur einfaldlega að endurspegla tal-
anda fólks af raunsæi og því samræmist málfarið fagurfræðilegum ramma
verksins. Fagurfræðileg uppbygging sögunnar er vel heppnuð. Hægt og rólega
er púslunum raðað saman fyrir lesandann, gefnar eru vísbendingar um ógæf-
una sem dundi yfir en hún er ekki útmáluð fyrr en seint. Hinir sterku er full af
vangaveltum um samtíðina sem standa okkur öllum nærri. Jafnframt virðist
hún fela í sér hógværa og lágstemmda en um leið ákveðna ádeilu, eða andstöðu
við öfl á borð við einstaklingshyggju, efnishyggju, nýfrjálshyggju og ljótleika-
dýrkun fjöldamenningarinnar. Það veitir víst ekki af slíkri andstöðu. En þetta
er ekkert áróðursrit, og öllum er óhætt að lesa þessa vönduðu skáldsögu, sama
hvar fólk stendur í pólitík. Enn fremur eru allir eindregið hvattir til þess.
Sigrún Davíðsdóttir
Sagnaandi og panelilmur
Vilborg Davíðsdóttir: Hrafninn. Mál og menning 2005.
Fyrir skömmu las ég viðtal við danskan rithöfund, man því miður ekki nafnið,
sem sagði næstu bók sína verða sögulega skáldsögu. Hann skildi reyndar ekki
af hverju hann ætlaði að skrifa slíka sögu því ekkert væri erfiðara en að skrifa
sögulega skáldsögu. Reyndar er skuggalega erfitt að skrifa góða skáldsögu
yfirleitt, en sögulegar skáldsögur þurfa ekki aðeins að vera vel skrifaður heldur
auk þess að enduryrkja liðna tíma án þess að verða eins og ýmsar tilraunir til
að kvikmynda Íslendingasögurnar: ilmandi af nýjum viðarpanel beint úr
næsta byggingarmarkaði!
Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur leiðir reyndar hugann að Íslendinga-
sögunum, þar sem sagan segir frá samneyti íslenskra landnema og innfæddra
á Grænlandi um miðja 15. öld. Sagan er uppvaxtar- og þroskasaga Naaju,
grænlenskrar stúlku sem missir sérlunda föður sinn, giftist landa sínum sem
skilur við hana þegar hún elur honum ekki barn en kynnist svo Mikjáli,
íslenskum manni, sem fellir hug til hennar þótt hann geti ekki kvænst henni
þar sem hún er heiðingi. Sagan lýsir því bæði grænlensku og norrænu lífi á
Grænlandi á þessum tíma og rekur samdrátt sem hugsanlega gæti hafa verið
einhvern veginn svona.
Vilborg hefur áður skrifað bækur um konur fyrri tíma sem fara sínar eigin
leiðir svo hún er hér á sínu kjörsviði. Hún fellir sögu sína inn í tíma og and-