Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Page 128
B ó k m e n n t i r
128 TMM 2006 · 3
rúmsloft, styðst ekki við fólk sem vitað er að var til heldur býr til eigin per-
sónur, svo hún er frjáls að því að skálda og skapa án þess að láta annað þrengja
að sér en almennar sögulegar staðreyndir og umhverfi sögutímans.
Þegar ég las bókina varð mér hugsað til tveggja tuttugustu aldar skáldsagna,
annars vegar Gerplu Halldórs Laxness (1952), hins vegar The Greenlanders frá
1988 (Grænlendingarnir, Sigurlína Davíðsdóttir þýddi, 1991) eftir bandaríska
rithöfundinn og Pulitzer-verðlaunahafann Jane Smiley. Það sem Laxness tókst
í Gerplu var að ná hreinum tóni kaldhæðni og sneiða hjá vandræðalegri við-
kvæmni – þetta síðasta einkenndi reyndar bækur hans almennt. Smiley skrifar
um norræna fjölskyldu á Grænlandi, persónurnar eru fæddar um og eftir
miðja 14. öld, það er um öld á undan atburðunum í Hrafninum. Smiley var
Fulbright-styrkþegi á Íslandi 1976–77 (verður þó hrikalega á í messunni í
bandvitlausri tilvitnun í Völuspá í upphafi bókarinnar). Hún býr til stíl sem í
ýmsu líkir eftir stíl Íslendingasagna og fékk mig til að kreppa tærnar í skónum,
ótrúlega óeðlilegur tónn og einfaldlega skrýtin saga sem heillaði mig ekki á
neinn hátt. – Vilborg hefur ekki þennan skrapaða naumstíl Gerplu en nær að
mínu mati miklu sterkari og einfaldari tóni en Smiley með þessum hermistíl
sínum.
Ég las Hrafninn fyrst síðastliðinn vetur í stofunni minni í London. Enskur
vetur er alltaf barátta við að halda almennilegum hita á illa einangruðum
húsum, og svo magnaðar eru lýsingarnar á fyrstu fimmtíu síðunum eða svo á
kulda og hungri á Grænlandi á 15. öld að tennurnar í mér glömruðu við lest-
urinn og garnirnar gauluðu þó fullur ísskápur væri í sjónmáli. Það var ekki
síður sterk tilfinning að lesa svo bókina aftur í 30 stiga sumarhitum Napólí
með lokkandi matarbúr borgarinnar á hverju horni.
Hægagangurinn framan af í lýsingum á því hvernig Naaja beitir öllu hugviti
sínu og næmi á aðstæður til að lifa af er afar áhrifamikill. Lýsingar á leit að mat,
banalegu föðurins og baráttu við kulda eru svo nákvæmar að þær verða
áþreifanlegar en þó ekki tilfinningaþrungnar. Sifjaspellsagan sem ýjað er að í
upphafi sögunnar og bregður fyrir síðar ljær frásögninni hörku og grimmd
sem fellur vel að nístandi kulda og hungri í harðbýlu landi.
Hjátrú var án efa stór þáttur í hugsun og hugarfari fólks á þessum tíma.
Næmi Naaju á landið og dýrin undirstrikar og eflir frásögnina af yfirnáttúru-
legum hæfileikum hennar: þessu efni eru gerð trúverðug skil, án nokkurra
útskýringa – það er einfaldlega hluti af lífinu eins og við sjáum það með augum
Naaju. Að hluta er efninu komið til skila í skáletruðum útúrdúrum þar sem
fléttað er saman þjóðsagnakenndu efni og skynjun Naaju í ljóðrænum köflum
sem stinga skemmtilega í stúf við frásagnarstíl bókarinnar almennt. Kaflarnir
sýna að Vilborg hefur blæbrigðaríkan stíl á takteinum, og ég hefði ekki haft
neitt á móti fleiri slíkum, þeir mynda skemmtilega andstæðu í textaáferðinni.
Og ég hefði viljað sjá þeim beitt skipulegar og oftar í stað þess að skjóta þeim
handahófskennt inn og – að því er mér virðist – án heildarhugsunar.
Hrafninn er þroskasaga og um leið ástar- og tilfinningasaga. Sá strengur er
sleginn strax í byrjun þegar Naaja minnist góðra stunda sem barn með föð-