Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 135
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 3 135
kosti verið. Hinir mörgu söguþræðir sem blandast saman í bókinni skipta
þegar upp er staðið engu máli.
Draugur Barthes
Eftir stuttan formála (þrætur Helenu og Guðjóns um merkingu stefnuljósa)
hefst skáldsagan á lýsingu Guðjóns á vinnuherbergi sínu:
Í vinnuherberginu er öllu haganlega fyrir komið. Veggirnir eru hvítir og auðir.
Skrifborðið er við gluggann svo að heimurinn blasir við þegar ég lít upp frá skrift-
um, þannig kem ég honum fyrir í því sem ég skrifa. […] Ég hef [símann] á skrifborð-
inu svo að ég þurfi ekki að standa upp frá skriftunum þegar hann hringir. (9)
Í grein sinni „Dauði Barthes: undanþeginn herskyldu“ birtir Hermann Stefánsson
eftirfarandi umfjöllun um sjálfsævisöguna Roland Barthes um Roland Barthes:
Í verkinu birtir Barthes allmargar ljósmyndir, þar af þrjár af þremur mismunandi
vinnustofum, skrifborðum sem hann situr sjálfur við. Þar er öllu raðað af stakri
þolinmæði, fyrirhyggju. Á einni vinnustofunni er uppröðunin næstum því sjúklega
nákvæm; allt er á sínum stað. Á vinstri hönd er sími […]1
Tilviljun? Varla, einkum sé tekið mið af því hvað Hermann virðist hrífast af
Barthes. Guðjón er Barthes. Barthes segir sögurnar sem Stefnuljós sam-
anstendur af. Barthes berst við merkingardjúp orðanna og tapar þræðinum í
gegnum Hermann, Helenu, Jósef, Línu, Gregor og fleiri persónur. Orðin sigra
merkinguna – enginn er neinu nær.
Dauði Brueghels
Rauður þráður í gegnum Stefnuljós er stúdía á málverkinu Sigur dauðans eftir
Jan Brueghel. Það hangir á skrifstofu Guðjóns Ólafssonar þegar í upphafi og í
það er stöðugt vísað í gegnum bókina: beinagrind á hestvagni sem spilar á
handsnúna lýru birtist á flugvelli í London, kaffihúsið sem Guðjón og Lína
hittast á heitir Krákan, og í dystópíunni sér bregða fyrir ýmsum táknum úr
málverkinu, t.d. trégálga sem er hjól á stöng. Undir lok bókarinnar birtist mál-
verkið í öllu sínu veldi (að vísu prentað svarthvítt) ásamt ítarlegri greiningu á
því. Meðal annars segir í greiningunni um málarann, sem annars er frægastur
fyrir nákvæmar og viðkvæmar blómamyndir: „Hvaða árar herjuðu á hollenska
málarann Jan Brueghel þegar hann málaði Sigur dauðans? Það er eins og hann
hafi lagt sig fram um að ímynda sér hið svakalegasta og viðbjóðslegasta ástand
sem ímyndunaraflið réði við að útmála.“ (166)
Sögumaður kaflans rekur hvernig Brueghel hafi með verkinu skrifað sig inn í
gróteska hefð sem rekja megi til málarans Hieronymus van Aken Bosch – að
ástæðan fyrir tilurð málverksins Sigur dauðans hafi einfaldlega verið eftirspurn: