Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 12
D a g n ý K r i s t j á n s d ó t t i r
12 TMM 2006 · 4
aminn er stæltur og sterkur og ungur en álfurinn hefur óljóst andlit á
kafi í miklu og úfnu skeggi svo að hann minnir á norskan skógarkött á
sumum myndunum. Í annarri bókinni hefur álfurinn fengið mun ein-
dregnari mannsmynd, skeggið er orðið hökutoppur og snyrtilegt yfir-
vararskegg eins og hjá Ástríki hinum gaulverska. Í þriðju Latabæjarbók-
inni hefur mynd íþróttaálfsins enn skýrst og er orðin enn mannlegri,
nefið hefur stækkað, snyrtilegt skeggið er svolítið liðað og myndin farin
að líkjast Magnúsi Scheving. Þetta tengdist trúlega þeirri staðreynd að
hann hafði leikið hlutverk íþróttaálfsins í leikritinu Latabæ sem var sett
á svið í Reykjavík veturinn 1996. Magnús Scheving var þá 28 ára og
gervi hans minnti á skógarálf eða jafnvel Hróa hött, grænn kufl með
breiðu belti og skotthúfa. Sýningin var full af orku, hreyfingu, söng og
dansi og naut mikilla vinsælda.
Sjónvarpsþættirnir
Upphaflega átti að gera teiknimynd um Latabæ.17 Það varð ekki ofan á
heldur sería þar sem fullorðnir leikarar léku á móti brúðum. Þættirnir eru
unnir með bestu fáanlegri grafík og tækni eða stafrænni tækni, HD-tækni
(High Definition Virtual Cinematography), þar sem ekkert er til sparað.
Þetta er virðingarvert af því að framleiðendur að barnaefni hafa
undanfarin ár skorið niður allt sem skorið verður til að gera framleiðsl-
una ódýrari; persónur eru einfaldar og hreyfa sig frumstætt, svipbrigð-
um er fækkað og samskipti persóna gerð einfaldari og vélrænni.18 Alltaf
eru gerðar kannanir til að finna út hve mikið er hægt að skera niður á
fagurfræði og dýpt áður en börnin missa áhugann á persónunum og
menn hafa gengið eins langt og hægt er að komast í þeim efnum.19
Magnús Scheving vonast hins vegar eftir að fá þessa fjárfestingu tilbaka
því hann segir: „Þessi tækni verður orðin algeng í flestum löndum hins
vestræna heims innan fárra ára. Það þýðir að þá verður Latibær eina
barnaefnið í boði fyrir slíkt sjónvarp. Auk þess skiptir þessi tækni máli
þegar verið er að afrita efnið, því gæðin minnka aldrei við afritun.“20
Það segir sig sjálft að þegar kostnaðurinn við hvern rúmlega tuttugu
mínútna þátt af Latabæ nemur yfir 35–40 milljónum íslenskra króna21
er fyrirbærið hvorki framleitt fyrir RÚV né fjármagnað af því. Það
kemur líka fram í grein Helga Marar Árnasonar „Ævintýrin handan við
hornið“ í Viðskiptablaði Morgunblaðsins að Magnús Scheving gat ekki
selt hugmyndina um Latabæ eftir að hann hafði þróað hana í bókunum
og söngleiknum árið 1997. Hann segir: „Það er hættulegt að hafa rétt
fyrir sér á röngum tíma. Það tók okkur mörg ár að sannfæra fólk um