Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 17
L a t i b æ r e r s k y n d i b i t i
TMM 2006 · 4 17
Gerðar hafa verið kannanir sem sýna hve hratt sjónvarpsefni fyrir
börn hefur þróast eftir að markaðskannanir fóru alfarið að ráða gerð
þáttanna. Það er engin ein formúla til fyrir barnaefni og menn reyna
ekki lengur eins og Walt Disney í gömlu Disney-myndunum að höfða til
barna á öllum aldri með tvöföldu ávarpi barnabókanna þar sem textinn
talar margraddað til ólíkra lesenda. Til að mæta þessu hafa menn skorið
barnamarkaðinn niður í sneiðar vegna þess að kannanir sýna nokkuð
vel hver viðbrögð mismunandi aldurshópa eru við persónum og atburð-
um. Latibær er aðallega ætlaður forskólabörnum eða aldurshópnum 4–7
ára og átök hins góða og hins illa fara eftir stöðlum markaðsmannanna
á því hvað börn á þessum aldri vilji helst sjá. Þannig snúast átökin um
daglegt líf; ég/við keppum við hann/þau um hver ræður, hver er góður
og stendur með frelsinu og framförunum og hver er illur og stendur með
ófrelsi og afturför, persónuleg átök koma upp milli ólíkra einstaklinga
o.s.frv. Stephen Kline telur að vaxandi áhersla á markaðskannanir hafi
komið niður á gæðum efnisins og segir:
Þegar höfundar þáttanna byrjuðu að skrifa fyrir aldursmarkhópa lögðu þeir
til hliðar fagurfræðilega mælikvarða og hættu að leggja rækt við sögurnar
sem sagðar voru og samtölin en tóku upp formúlukennd vinnubrögð í staðinn.
Niðurskurði var borið við og skopstælingar settar í stað persóna, baksviðs-
myndir í staðinn fyrir alvöru sviðsetningu sagnanna. Þeir smættuðu blæbrigðin
og fínleikann í barnabókinni niður í atburðalínu sem lýsir röð uppákoma sem
settar eru inn í söguskema og útfærðar af teiknurum. Ofureinfaldaðar mynd-
skreytingarnar og stirðleg samtölin í sjónvarpi fyrir forskólabörn eru verst. Það
er orðið óbærilegt fyrir flesta foreldra að horfa með börnunum á þessar dauðu
samræður og ömurlegu teikningar.30
Í ritdómi sínum um Latabæjarbækurnar á Kistunni árið 2003 sagði Jök-
ull Valsson:
Að lokum vil ég benda Magnúsi Scheving á að íslenskt samfélag hefur orðið
mun fjölmenningarlegra á þeim fáu árum síðan fyrsta Latabæjarbókin kom út,
og því tilvalið að bæta nokkrum nýjum persónum inn í galleríið í næstu bók í
syrpunni. Því ekki að hafa persónu á borð við Alla Araba, bráðskemmtilegan
og fjörugan ofsatrúarmann, eða Tinnu Tælending, lágvaxna skúringakonu með
fyndinn hreim. Eða jafnvel Gulla Gyðing, stórnefjaðan nískupúka sem þarf að
læra eitt og annað um örlæti frá íþróttaálfinum. Eða á Nenni Níski kannski að
vera af gyðingaættum?31
Strax árið eftir að þetta var skrifað kom í ljós að þetta var ekki eins
fyndið og Jökull hafði mögulega hugsað sér það. Börnin í sjónvarpsþátt-