Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 26
K r i s t í n R a g n a G u n n a r s d ó t t i r
26 TMM 2006 · 4
Myndabækur eru oft fyrsta viðkynning barna af bókum. Af þeim læra
börn að umgangast bækur, málþroski þeirra eflist og þau fá sína fyrstu
þjálfun í myndlestri. Myndabókin kann að sýnast einfalt form en er í
raun spennu hlaðinn og flókinn miðill. Myndabækur nýta sér tvö tákn-
kerfi, myndir og texta. Lesandinn nemur orð og mynd samtímis á sam-
bærilegan hátt og þegar horft er á kvikmynd. En hann skynjar einnig að
sagan hefur tvö lög sem haldast mismikið í hendur. Stundum fylgjast
mynd og texti algerlega að, stundum segir textinn eitt en myndin sýnir
eitthvað annað og stundum bætir myndin einhverju við textann.
Myndir í myndabókum gegna veigamiklu hlutverki og í þeim eru
margskonar tákn: Hin augljósu tákn, dulin tákn, menningarleg tákn,
írónísk tákn og margræð tákn. Myndlæsi er því mikilvægt til að geta
ráðið í þessi fjölbreyttu tákn og almenn þekking lesandans kemur þar
einnig við sögu. Úlfhildur Dagsdóttir segir í grein sinni „Það gefur auga
leið: Sjónmenning, áhorf, ímyndir“2 að myndmál sé alltaf metið lægra
en ritað mál, það þarfnist ekki kunnáttu né lesturs, sé í raun „alþjóðlegt
tungumál“. Þessa hugmynd segir hún vera mjög vinsæla en hængurinn
sé sá að líkt og læsi á ritað mál sé myndlæsi menningarlegt fyrirbæri
sem þurfi að þjálfa og rækta.
Í „Retórík myndarinnar“ segir Roland Barthes myndina einfalda,
hún endurskapi ekki allt heldur velji áhersluatriði. Hún sé því túlkandi
og vísi út fyrir sig í þekkt fyrirbæri. Hún sé einnig hlaðin táknum sem
fela í sér merkingarauka. Myndin er samkvæmt Barthes boðmiðill sem
vísar í mismunandi þekkingu.3
Myndhöfundar nýta táknrænt myndmál markvisst til að koma sögu-
þræðinum til skila í verkum sínum. Þeir nota myndbyggingu, liti og
form til að miðla atburðarásinni og tilfinningum persóna sinna. Það
sama á við um stíl myndanna, þykkt lína, litanotkun, hvöss eða ávöl
form. Allt hangir þetta saman við efni sögunnar og hefur áhrif á það
hvernig viðtakandinn skynjar heildina.
Í sumum bókum endurtekur myndskreytingin eingöngu það sem
kemur fram í textanum en í öðrum bæta myndirnar einhverjum upplýs-
ingum við, skapa aukamerkingu eða skírskotanir. Sonia Landes segir að
eitt hlutverk mynda í myndabókum sé vissulega að leggja áherslu á
merkingu sögunnar með því að myndskreyta orðin en að góðir mynda-
bókahöfundar gangi miklu lengra með því að bæta við og þróa söguefn-
ið.4 Myndirnar geta vísað í fleiri möguleika á túlkun eða jafnvel grafið
undan því sem textinn segir, véfengt hann eða sýnt hið öndverða. Þetta
er hægt að gera á áberandi hátt eða þannig að lesandinn taki ekki eftir
því fyrr en við annan lestur.