Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Qupperneq 44
A n n a Þ o r b j ö r g I n g ó l f s d ó t t i r
44 TMM 2006 · 4
Fagrar heyrði ég raddirnar og Vísnabókinni og ber orðalagi í öllum til-
fellum saman3 svo það verður að teljast líklegt að Símon hafi þar stuðst
við þá bók.
Tuttugu og þrír tilgreindir höfundar, flestir gengnir þegar bókin kom
út, eiga vísur og kvæði í bókinni, eða alls þrjátíu og fjóra titla. Jónas
Hallgrímsson á mest einstakra höfunda, alls sjö ljóð, en Sveinbjörn
Egilsson og Guðmundur Guðmundsson eiga þrjú ljóð hvor og Þorsteinn
Erlingsson tvö. Aðrir höfundar eiga svo eina vísu eða eitt ljóð hver og
meðal þeirra eru Páll Ólafsson, Steingrímur Thorsteinsson, Örn Arnar-
son og Sig. Júl. Jóhannesson. Þegar tekið er tillit til leiðréttinga, sem
gerðar voru í næstu útgáfum bókarinnar, mest í annarri og þriðju
útgáfu, verða höfundar í þessari fyrstu útgáfu alls 24 og titlar eftir þá 38,
þar af eru tvær þýðingar.4 Í nokkrum tilfellum styttir Símon þulurnar
og kvæðin nokkuð. Bókin hefst á fyrsta erindi kvæðisins ‚Sofðu unga
ástin mín‘ eftir Jóhann Sigurjónsson og endar á ‚Heilræðum‘ Hallgríms
Péturssonar.
Í öllum skrifum sínum um viðfangsefnið börn og bækur leggur
Símon ríka áherslu á að það eigi að bjóða börnum sem vandaðast efni frá
fyrstu tíð. Í grein í Skírni (1963) segir hann:
Engir lesendur eru þakklátari en börn. Hugur þeirra er gljúpur og næmur.
Aldrei á ævinni verðum við fyrir eins djúpum og varanlegum áhrifum frá
bókum og í barnæsku, því að þá er innlifunarhæfileiki okkar mestur. (bls. 73)
Þetta sjónarmið hefur hann haft til grundvallar við val á efni í Vísna-
bókina.
En það vekur óneitanlega athygli hve lítið er af nýju eða nýlegu efni í
bókinni miðað við hve mikið var þó til á þessum tíma, til dæmis eftir þá
Stefán Jónsson og Jóhannes út Kötlum. Í skrifum Símonar um börn og
bækur í áðurnefndri grein í Skírni kemur fram að hann hafði vissa van-
trú á efni sem sérstaklega er samið fyrir börn, þótt hann taki fram að
margt af því hafi vissulega listrænt gildi. Hann varar foreldra beinlínis
við því að láta börn búa um of eða eingöngu að slíku efni og telur að það
gæti orðið börnunum þroskatálmi og að þau festust í bernskum hugs-
unarhætti. Um ljóð handa börnum segir hann:
Ég held varla, að nokkrum heilvita manni dytti í hug að glæða ætti ljóðasmekk
barna eingöngu eða nær eingöngu á ljóðum, sem ort hafa verið sérstaklega
handa börnum. Ekki svo að skilja, að þessi skáldskapargrein eigi ekki fullan rétt
á sér, ýmis ljóð, sem ort hafa verið sérstaklega handa börnum, eru prýðileg og
hafa listrænt gildi. En börn hafa, ef svo má segja, slegið eign sinni á öll þau ljóð,
sem eru við þeirra hæfi, þótt þau væru upphaflega ætluð fullorðnum mönnum