Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Síða 50
A n n a Þ o r b j ö r g I n g ó l f s d ó t t i r
50 TMM 2006 · 4
ingu vísna á síðum. En opnur voru fluttar til svo röð þeirra breyttist og
vandséð hvers vegna það var gert eða hvort það er til bóta. Það er komið
efnisyfirlit með upphafsorðum vísna og kvæða í lok bókarinnar sem er
til mikils hagræðis og er bókin því orðin 112 síður.
Það er greinilegt að þessi útgáfa frá 1977 átti ekki miklum vinsældum
að fagna því sex árum síðar, árið 1983, þegar sjöunda útgáfa Vísnabók-
arinnar leit dagsins ljós, hafði verið snúið rækilega við blaðinu. Allar
litmyndirnar tólf eru nú komnar aftur í upprunalegri gerð og margir
hafa eflaust orðið fegnir að fá þar til dæmis gömlu Grýlu sína aftur.
Hundurinn við hlið drengsins að biðja birtist líka aftur í lok Heilræða-
vísnanna. Nú viku líka nokkrar myndir, sem skipt hafði verið um í
þriðju útgáfunni, eða hafði verið breytt lítillega, fyrir upphaflegum
myndum úr fyrstu útgáfunni. Meðal þeirra má nefna leiðréttu myndina
við ‚Hvernig flutt var yfir á‘ og myndina með ‚Krumminn á skjánum‘.
Mikill missir er að einstaka myndum sem við þetta hurfu úr bókinni og
hafa ekki sést þar síðan.
Enn hefur verið hróflað við röð opnanna í bókinni og er röðin nú lík-
ari fyrri útgáfum þó ekki sé hún nákvæmlega eins og nein þeirra. Nú er
komin grá rönd utan með öllum síðum og rauð lína sem rammar inn
hverja síðu. Upphafsstafur hverrar vísu er nú stærri en hinir til að
afmarka vísurnar betur en áður og stjarnan á milli þeirra er horfin. Þá
eru heiti kvæðanna, þegar um það er að ræða, skrifuð með upphafsstöf-
um og undirstrikuð.
Bókarkápan er gjörbreytt. Grá rönd utan með og rauð lína eins og á
síðum bókarinnar ramma inn myndir á forsíðu og baksíðu. Framan á
bókarkápu er lítil litmynd á bláum grunni, inni í stærri mynd, sama
myndin og var á kápu fyrstu og annarrar útgáfu. Á báðar hliðar við
þessa litlu mynd eru svarthvítar teikningar af nokkrum dýrum. Neðri
hluti myndarinnar er hvítur og þar er nafn útgáfufyrirtækis með bláu
letri, en efri hluti myndarinnar er ljósblár. Þar stendur Vísnabókin með
stórum rauðum upphafsstöfum og þrír fljúgandi svanir skreyta þann
hluta líka eins og fyrirboði um það frelsi og ókunn lönd sem lestur góðra
bóka getur veitt. Tveir litlir fuglsungar sitja uppi í minni myndinni og
tvær litlar mýs eru fyrir neðan hana. Á baksíðu er upplýsingatexti og á
neðri hluta síðunnar er litmynd af drengnum með bangsann sinn, sama
mynd og á baksíðu fyrstu og annarrar útgáfu. Titilsíðan hefur líka
breyst. Í stað drengsins sem skrifar og verið hafði á titilsíðunni frá upp-
hafi, sama myndin og með upphafi Heilræðavísnanna, eru komnir
fljúgandi svanir. Titillinn er grár og með sama letri og á kápu.
Vísnabókin kom út í áttunda sinn nánast óbreytt árið 1992, í níunda