Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Síða 53
V í s n a b ó k i n s e x t u g
TMM 2006 · 4 53
hverjum mæli upplifun af þessari bók með langömmu sinni, sem er
fædd árið 1939. Og það er í sjálfu sér ákveðinn galdur.
Vissulega má setja upp margvísleg gagnrýnigleraugu þegar bókin er
skoðuð og metin nú, en það getur verið erfitt með svo elskaða bók. Ekki
er þó hægt að horfa fram hjá því að sumar vísurnar og þulurnar höfða
að öllum líkindum lítið til nútímabarna og mættu ef til vill missa sín, en
um það sýnist sitt hverjum. Líka getur verið erfitt að meta hvað höfðar
til barna; börn eru misjöfn og það skiptir máli hvernig farið er með efni
og hver fer með það. Við skulum samt minnast þess að vísurnar í bókina
voru valdar fyrir sextíu árum og valið síðast endurskoðað árið 1973. Og
þótt efnisvalið sé vandað var það mjög íhaldsamt eins og fyrr er rakið.
Í því sambandi vekur einnig athygli að aðeins er ein lítil vísa í bókinni
eftir konu, Marín Guðmundsdóttur; ‚Magnús raular, músin tístir‘, allt
annað nafngreint efni er eftir karlmenn. Voru þó til dæmis komnar út
vandaðar ljóðabækur fyrir börn eftir skáldkonurnar Erlu (Guðfinnu
Þorsteinsdóttur), Ævintýri dagsins (1958), og Margréti Jónsdóttur, Á
léttum vængjum (1961), þegar efnið var endurskoðað síðast. Ljóð eftir
þær báðar hefðu sómt sér vel í Vísnabókinni. Við þetta má bæta að fleiri
vísur og mun fleiri myndir í bókinni sýna drengi og karlmenn en stúlk-
ur og konur.
Ég þykist þó vita að margir megi ekki til þess hugsa að við bókinni sé
hróflað. Viðmælendur mínir eru allir sammála um það að Vísnabókin
eigi að fá að vera til áfram í óbreyttri mynd við hlið annarra og nýrri
vísnabóka, enda sé ekki ástæða til annars á meðan hún selst eins vel og
raun ber vitni og get ég vel tekið undir það. Það blandast heldur engum
hugur um að Vísnabókin geymir gott úrval af gömlu efni sem ástæða er
til að sé aðgengilegt á öllum tímum. Engu að síður er brýn nauðsyn að
fá fleiri hliðstæðar vísnabækur sem höfða meira til nútímabarna og
barna á misjöfnum aldri, eins og Einar Ólafur Sveinsson benti raunar á
þegar bókin kom fyrst út fyrir sextíu árum. Þar þarf að fara saman
vandað úrval af gömlu og nýju efni og víst er að af nógu er að taka. Líka
þarf nauðsynlega að gefa reglulega út úrval þýddra barnaljóða frá
ýmsum heimshornum.
En í ljósi þess hve Vísnabókin hefur orðið lífseig og hve rík áhersla
virðist lögð á að hún sé til á flestum heimilum er óhætt að fullyrða að
þeim Símoni Jóh. Ágústssyni og Halldóri Péturssyni hafi tekist að hafa
djúp og varanleg áhrif á börn á næmasta innlifunarskeiði, svo gripið sé
til fyrrnefndra orða Símonar sjálfs. Lengi lifi Vísnabókin!