Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 66
Ve r k a m e n n s k r i fa K r i s t n i E . A n d r é s s y n i
66 TMM 2006 · 4
um og nýrri bókmenntastefnu, skapa víðari sjóndeildarhring, glæða frelsisþrá
alþýðu, gera þjóðina frjálsa“. (Enginn er eyland, bls. 333).
En bréfritararnir leggja aðrar áherslur. Þeir eru að hugsa um tímarit sem einskonar
allsherjar kennslubók í þeim alþýðuskóla sem aðstæður hafa ekki leyft þeim að ganga
á. Þeir vildu nýjan skáldskap og líka fréttayfirlit eins og tíðkast höfðu í tímaritum eins
og Skírni, einnig greinar um hagfræði og skólamál, þeir vildu fróðleik um lönd og lýði
(engu líkara en þeir séu að biðja um að lítill ritflokkur með því nafni verði til í hluta
tímarits alþýðu). Þeir gleyma hvorki íþróttum, kvenréttindum, garðrækt né mataræði
– vítamínfræði vilja þeir en ekki margarínmenningu! Þeir halda ekki á lofti póli-
tískum boðskap – þeir vilja að allt sé skrifað í anda hlutlægni og í nafni nytsemdar.
Áform þeirra eru að sönnu ekki sérlega raunhæf – þótt þeir tali um að stefna ritsins
skuli vera „raunsæ nútíðarmenning“ – því þeir vilja hafa alltof mikið undir.
Hugmyndir bréfritaranna eru nokkuð skyldar þeim sem vöktu fyrir hugmynda-
fræðingum héraðsskólanna sem þá voru ungir að árum: þar áttu menn að læra
sitthvað nytsamlegt með ódýrum hætti (helst að lifa á staðarins gæðum sem mest)
í skólum sem áttu að sækja sitthvað til íslenskrar baðstofumenningar, enskra
heimavistarskóla og samvinnubúskapar. Óskir þeirra eru og tengdar því, að á þess-
um tímum er talið sjálfsagt að alþýðuhreyfingar komi sér upp eigin „samfélagi“ –
eigin ungliðahreyfingum, kvennahreyfingum, alþýðuhúsum til samkomuhalds,
eigin blöðum og tímaritum, eigin karlakórum og lúðrasveitum. Þetta stunda allir
vinstriflokkar Evrópu meira eða minna á þessum árum, og þá einnig Alþýðuflokk-
urinn hér á landi og svo Kommúnistaflokkurinn og síðar Sósíalistaflokkurinn.
Bréfritarar eru að sönnu ekki á byltingarbuxum eins og Kristinn E. Andrésson, en
þeir telja sig samt þurfa eitthvað annað andlegt fóður en „burgeisar og mennta-
menn“ í Reykjavík sem kaupa Skírni. Þeir vilja eitthvað sem er meira „seðjandi“ en
fróðleiksmolar á víð og dreif, og þeir leggja sérstaka áherslu á að sögð séu í tímarit-
inu góða tíðindi af kjörum verkafólks um land allt og í öðrum löndum.
Í fyrrgreindri ræðu segir Kristinn: „Við trúðum á mátt skáldskaparins“– og
hann vann af miklum eldmóði að því að gera skáldskapinn að samverkamanni
róttækra hugsjóna. Vissulega átti hann skoðanabræður meðal verkamanna í þessu
efni – líka á Akureyri þar sem Tryggvi Emilsson var um þetta leyti að sækja sér
pólitískan styrk í verk Halldórs Laxness „sem ég þaullas mér til sáluhjálpar og
lærði sumt utanbókar til að standa betur að vígi í verkalýðsbaráttunni“ (Baráttan
um brauðið, bls. 235). Bréfritarar voru ekki nándar nærri eins mikið með hugann
við þetta fagnaðarerindi skáldskaparins sem gefur nýja sýn á heiminn og nýjan
kraft til að glíma við hann. En þegar þeir greina frá einstökum efnisflokkum í
tímariti fyrir „allan almenning“ þá byrja þeir á fagurbókmenntum.
Nú eru aðrir tímar – og þó voru þeir þá þegar farnir að láta á sér kræla við hlið
þeirra hreyfinga og þess hugarfars sem stýrðu penna Valdimars Guðjónssonar og
félaga hans á Akureyri fyrir 70 árum. Það var þá að enska skáldið Auden heimsótti
Ísland og orti frægt kvæði um heimsóknina – en þar segir m.a. (í þýðingu Magúsar
Ásgeirssonar):
Í afdal hvín djassinn og æskunnar fegurð
fær alþjóðlegt filmbros á vör
Árni Bergmann