Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 70
J ó n Yn g v i J ó h a n n s s o n
70 TMM 2006 · 4
En á titlinum eru fleiri hliðar. Í fyrsta lagi má benda á að aðalpersónan
Hlynur Björn á sér tvenn heimkynni, annars vegar póstnúmerið 101 í
Reykjavík, hins vegar netið, hinn stafræna heim sem stjórnast af vélamáli
– allt sem við lesum og sjáum á netinu má tákna með þessum tveimur
tölustöfum 1 og 0 í átta stafa runum. Þá má líka sjá í byggingu bókarinn-
ar tilvísun til titilsins. Fyrsti hluti hennar er auðkenndur með tölustafn-
um 1 og heitir „Það eina sem ég veit er ég“. Annar hluti er númeraður 0
og heitir „Ef eitthvað annað kæmi upp á morgun en sólin“. Þriðji hlutinn
er svo aftur númer 1: „Á neðsta farrými nætur nakinn ég“. Hreyfingin er
frá einum um núll og aftur til eins, aftur á byrjunarreit. Um leið er gefið
í skyn að líf Hlyns fari í hringi, að ekkert hafi gerst og ekkert breyst.
Enn einn lesturinn á titlinum er svo að sjá í honum tilvísun til 1001
nætur en ólíkt Sjerasade sem segir frá til að forðast dauðann segir Hlyn-
ur frá til að forðast lífið. 101 Reykjavík er fyrstupersónufrásögn Hlyns,
hún byrjar í miðri einræðu hans sem síðan heldur áfram út alla bókina.
Fyrsta orðið í sögunni, „Allavega“, gefur þetta skýrt til kynna, það er
eins og lesandinn komi inn í orðaflaum sem er löngu hafinn og ekki sér
fyrir endann á í lok sögunnar.
Þessi frásagnaraðferð er helsta einkenni bókarinnar og gerir hana
býsna erfiða viðfangs. Þarna kemur til skjalanna eitt af grundvallar-
atriðum frásagnarfræðinnar, sambandið á milli söguhöfundar og sögu-
manns. Öll túlkun á sögunni veltur á því hvernig við skiljum þetta
samband. Þegar bókin kom út, og raunar oft síðan, hafa menn kosið að
líta svo á að það sé tiltölulega einfalt og ályktað sem svo að Hlynur Björn,
söguhöfundur og jafnvel Hallgrímur Helgason sjálfur hafi sömu grund-
vallarafstöðu til heims sögunnar, séu honum algerlega samdauna og
skauti eftir yfirborðinu með póstmódernískum pírúettum og helj-
arstökkum án þess að nokkuð skipti máli. Allt sem heitir dýpt, viðmið
og gildi á að vera horfið, öll tákn tæmd og tungumálið, líkt og persón-
urnar sem birtast í bókinni, form án innihalds sem er til þess eins
nýtilegt að teygja, toga og skrumskæla.4
Þetta er að mínum dómi fráleitur lestur á bókinni. 101 Reykjavík er
fyrst og fremst óhemjukrítísk skáldsaga því þrátt fyrir þá hrifningu á
samtímanum sem birtist í frásögn Hlyns afhjúpar hann sjálfan sig í
sífellu. Yfirborðið sem textinn hreyfist eftir er ekki eins og skautasvell
heldur þvert á móti eins og djúpur hylur sem Hlynur forðast sífellt að
sogast niður í. 101 Reykjavík útmálar ekki heim þar sem öll dýpt er
horfin heldur er hún mónómanísk einræða sögumanns sem óttast ekk-
ert eins og dýptina. Ef ofvirkni Hlyns í textaframleiðslu myndi linna, ef
hann hætti að tala, þyrfti hann að líta inn í sjálfan sig og ekkert óttast