Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 71
H e i m a h j á m ö m m u
TMM 2006 · 4 71
hann meira. Daður sögunnar og Hlyns sjálfs við freudíska túlkun á lífi
hans og fjölskyldu sem birtist stundum í sögunni má lesa sem vísbend-
ingu um þetta.
Það er engu að síður erfitt að átta sig á afstöðu söguhöfundar til Hlyns
og þess heims sem hann lifir í vegna þess að rödd hans er það eina sem
sagan býður upp á. Til að lesa út úr bókinni gagnrýna afstöðu til þeirrar
menningar sem hún óneitanlega veltir sér upp úr verður lesandinn að
gefa sér að Hlynur feli eitthvað með málæði sínu, líkt og Hamlet gerir
með því að gera sér upp geðveiki.
Frásagnaraðferð Roklands er aðgengilegri hvað þetta varðar og
vandamálin við gagnrýni sögunnar á samtímann önnur. Sögumaður
Roklands er alvitur og þótt aðalpersónan Böddi sé alla jafna vitundar-
miðja sögunnar sér hann líka í hug annarra persóna. Samband Bödda
og sögumanns er unnið á hnitmiðaðan hátt. Framan af sögunni stendur
sögumaður þétt upp við Bödda, fylgir honum eftir og fellir jafnvel sjálf-
ur dóma um menn og málefni sem gætu allt eins verið komnir frá
Bödda. En eftir því sem líður á söguna og Böddi einangrast frá samfé-
laginu og missir tengslin við veruleikann vex fjarlægðin á milli þeirra.
Ólíkt Hlyni í 101 Reykjavík fær lesandinn líka að sjá Bödda utan frá.
Þó að sögumaður hafi samúð með honum sér hann Bödda líka með
augum samfélagsins. Strax í öðrum kafla sögunnar kemur þessi lýsing á
honum:
Hvað var hægt að gera við slíkan mann? Slíkan síreykjandi, grannvaxinn, grett-
an og vöðvaspenntan mann með tálgað andlit og fléttað tagl sem sat einn við
sjávarborð norður í landi og sötraði bjór. Fyrir þrjátíu og átta árum hafði hann
verið settur saman af heiðarlegu og hörkuduglegu fólki, einföldu sveitafólki sem
hafði náð saman á mölinni og óvart getið af sér flókinn dreng: Of gáfaður fyrir
Krókinn, of reiður fyrir Reykjavík, of heimþrár fyrir Berlín.
Böddi var ógæfi gáfumaðurinn, hlédrægur hrópandi, gáfnaljós sem naut sín
best í myrkri. Hann var órakaði náunginn sem menn rekast annað slagið á í
dimmu barhorni og fer að tala við þá um stóru málin. Og allt sem hann segir er
svo satt og rétt og sett fram á svo skýru og fögru máli að fólk furðar sig á því hvers
vegna slíkur maður er ekki rektor Háskólans eða forsætisráðherra. En um leið og
komið er yfir götuna og maðurinn sést í fjarlægð blasir við öllum að hann er einn
hinna vonsviknu. Alveg óháð upplagi, útliti og greind hefur lífið skipað honum í
þá deild; hann er brennimerktur biturleikanum um aldur og ævi; hornreka.5
Já, hvað á að gera við svona mann? Sögumaður fylgir Bödda frá því að fall
hans hefst þegar hann er rekinn úr kennarastöðu við Fjölbrautaskólann
á Sauðárkróki og þar til fallið fullkomnast í dauða hans. Saga Bödda á
þessu tímabili minnir kannski mest á eddukvæði eða rómantíska óperu