Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 75
H e i m a h j á m ö m m u
TMM 2006 · 4 75
aldrei heyra í mér gegnum hávaðann. Eina leiðin til að ná eyrum þeirra liggur
í gegnum rokkið. En ég mun aldrei rokka. Ég verð aldrei rokkari. Því mun ég
deyja í Rokklandi. (210)
Þó að Böddi verði aldrei rokkari er hann engu að síður þátttakandi í
þeim heimi sem hann fyrirlítur, og það er eitthvað óendanlega sorglegt
við lýsinguna á híbýlum Bödda þar sem rómantíkerinn situr við það til
skiptis að blogga á netinu og þýða Hölderlin, umkringdur því sem hann
fyrirlítur mest, klámi og tómum kókflöskum innan um meistaraverk
bókmenntasögunnar (sum óupptekin) og rykfallna geisladiska. Mað-
urinn sem þolir ekki samtímann notar internetið til að koma skömmum
sínum á framfæri, fastur í því neti sem hann er sífellt að reyna að benda
öðrum á að haldi þeim föngnum.
Þarna birtist í hnotskurn vandi þess sem vill gagnrýna samtímann og
hávaða hans. Böddi er að mörgu leyti fyrirmyndar samfélagsrýnir sam-
kvæmt forsendum hans sjálfs og fyrri tíma. Sýn hans á samfélagið er
skýr og hann býður upp á valkosti: allt það besta úr evrópskri menningu
fram til aldamótanna 1900. En vandi hans felst í sambandsleysinu við
samtímann. Kaldhæðnin er allsráðandi og bölmóður Bödda nær aldrei
eyrum landsmanna nema sem skemmtiefni:
Um nokkurra ára skeið höfðu gamansamir blaðamenn á sunnanpóstunum gert
sér að leik að birta smælki af síðunni í einhverjum aukadálkinum hjá sér með
því fororði að „Sauðkræklingurinn síkáti“ eða „Roklendingurinn“ færi á kost-
um sem aldrei fyrr: (66)
Það er kannski ekki undarlegt að Böddi bilist á endanum. Hann nær
ekki sambandi við samtímann, er spámaður í heimi sem snýr öllu upp í
grín, þess vegna hlýtur saga hans að snúast upp í harmleik.
Tilvísanir
1 Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Ísland er sjoppa.“ www.bokmenntir.is
2 Sumarið 2004 fluttu ýmsir bloggarar pistla á Rás 1 í þáttaröð sem bar þessa yfir-
skrift.
3 Kristján B. Jónasson: „Ár stöðugleikans. Um nokkrar skáldsögur sem komu út á
árinu 1994.“ Tímarit Máls og menningar 4/56 (1994), 113.
4 Sjá t.d. Heimi Pálsson: Sögur, ljóð og líf, 141–42.
5 Hallgrímur Helgason: Rokland. Mál og menning 2005, 15–16. Eftirleiðis verður
vitnað til bókarinnar innan sviga í meginmáli.
6 Hallgrímur Helgason: „Dauða rokkið.“ 10.03. 2001
7 Hallgrímur Helgason: „Man U2“ DV 07.04.2001.
8 Hallgrímur Helgason: „Allar heimsins dellur.“ DV 31.03. 2001.