Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Síða 84
G í s l i S i g u r ð s s o n
84 TMM 2006 · 4
stafsetningarkennslu sem felast í því að koma málstöð nemendanna
sjálfra í gang; í stað þess að láta nemendur gera villur í stíl eru þeir látn-
ir skrifa allt rétt – sjálfum sér (og lesendum greinar Baldurs) til undr-
unar. Samkvæmt því sem þar segir má líkja hinum nýju aðferðum við
muninn á því að kennarinn þurfi annars vegar að ýta bíl alla leið austur
á Kambabrún og láta hann svo renna niður á jafnsléttu þar til að hann
stöðvast og hins vegar að hann komi bílnum í gang strax í Reykjavík
þannig að hægt sé að aka honum fyrir eigin vélarafli austur. Þetta er
kölluð orðhlutaleið og verður fróðlegt að sjá hvernig henni vegnar í
skólakerfinu.
Það er algeng hörmungarsaga prófarkalesara að þegar þeir biðja um
að eitt atriði í texta sé leiðrétt slæðist inn ný villa á svipuðum slóðum.
Því þarf jafnan að gaumgæfa nágrenni slíkra leiðréttinga þegar farið er
yfir texta í næsta yfirlestri.
Fyrir nokkru dundu á landsmönnum auglýsingar um stórfurðuleg
verð í Hagkaupum – sem var gert nokkuð fyndið með því að láta Íslend-
ing lesa danskar tölur með þessum verðum. Fyrir mörgum árum var
reynt að taka á vandamálinu Hagkaupum sem landsmenn höfðu þá
jafnan í eintölu; keyptu þetta og hitt í Hagkaup. Þetta þótti ekki alls
kostar rétt því kaup í þessari merkingu eru fleirtöluorð. Við gerum góð
kaup en fáum, eftir atvikum, hátt eða lágt kaup. Samkvæmt öllum við-
teknum reglum var því augljóst að við áttum að kaupa vörurnar í Hag-
kaupum – sem buðu á þeim árum jafnan lægsta verðið. Þegar þessi
umræða hafði geisað um skeið komu tilmæli frá yfirstjórnendum Hag-
kaups um að þeim líkaði ekki þessi tilraun til málvöndunar, þeir vildu
láta málvenjuna njóta vafans svo fólk gæti haldið áfram að versla í Hag-
kaup. Seinna brá hins vegar svo við að fyrirtækið auglýsti sjálft fleirtölu-
myndina, í Hagkaupum, en þá tókst ekki betur til en svo að verðið, sem
var jafnan lægst í Hagkaup, var nú komið í fleirtölu; stórfurðuleg verð –
sem við í mállögreglunni höfum vanist að telja leiðindamál.
Þessi tilhneiging hefur verið kölluð fleirtölusýki, það er þegar orð eru
notuð í fleirtölu sem hafa hingað til aðeins verið í eintölu. Á hliðstæðan
hátt og sum orð eru eingöngu notuð í eintölu þá eru önnur orð sem eru
alltaf í fleirtölu; orð á borð við skæri, verðlaun og tónleika. Þá segjum við
ekki eitt skæri, eitt verðlaun og einn tónleikur, og ekki heldur tvö skæri,
tvö verðlaun og tveir tónleikar; heldur ein og tvenn skæri, ein og tvenn
verðlaun og einir og tvennir tónleikar, og síðan áfram þrenn og fern eða
þrennir og fernir. Það er engin ástæða til að slíta í sundur þann málfars-
frið sem ríkt hefur um þessi atriði.
Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling hafa rannsakað útbreiðslu