Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 89
Í s l e n s k m á l p ó l i t í k
TMM 2006 · 4 89
mála. Og hvað erum við þá að óttast þegar fjölmörg fordæmi eru fyrir
nánu sambýli tungumála án þess að annað þeirra sé lagt niður?
Þau tungumál sem hér voru nefnd eiga öll stórt bakland sem þau
sækja lífskraft sinn til. Dæmin eru því gagnslaus þegar við hugsum um
sambýli íslensku og ensku. Við slíka umhugsun þurfum við að líta til
þjóða á hjara veraldar með úthafið á eina hönd og menningu stórþjóðar
á hina. Slíkar þjóðir eru margar í Vesturevrópu þó að við höldum stund-
um að á Jörðinni búi annars vegar milljónaþjóðir og hins vegar Íslend-
ingar. Við getum hugsað til Frísa undan ströndum Hollands, um fjögur
hundruð þúsund manna sem eru nú flestir orðnir tvítyngdir á hollensku
og frísnesku. Þeir eiga sér ritmál frá 13. öld, sem er skyldara ensku en
hollensku, og forna frægð í verslun og viðskiptum. Samt á þeirra tunga
í vök að verjast. Sömu sögu má segja um örlög bretónskunnar á Bretagne-
skaga í Frakklandi og velskunnar í Wales, sem lifa nú við auman kost á
vörum fjögur til fimm hundruð þúsund manna. Þó er staða þeirra góð
miðað við hin keltnesku málin: írsku og skosku. Írskan, sem á sér elstu
bókmenntasögu meðal þjóðtungna Vesturevrópu, skrimtir nú meðal
hundrað þúsund manna og nærist á óarðbærum ríkisstyrkjum, og
merki skoskunnar er haldið uppi af enn færri málhöfum.
Þessi mál eru öll að deyja. Dauða þeirra bar mjög brátt að. Það tók
aðeins þrjár kynslóðir að drepa þau þannig að afarnir og ömmurnar
gátu ekki talað við barnabörnin. Ein kynslóð fann að gamla málið tafði
fyrir frama hennar í veröldinni. Hún lagði því á sig mikið erfiði undir
málofsóknum stórþjóðarinnar, lærði nýtt tungumál og hélt næstu kyn-
slóð frá gamla málinu sem afi og amma muldruðu áfram uppi í sveit. Og
þegar hinn samfelldi þráður aldagamallar málhefðar hafði verið slitinn
í sundur með þessum hætti fengu engin mannleg málræktarátök splæst
hann saman aftur.
Nýja kynslóðin á mölinni tók upp nýja siði og nýtt tungumál. Þeir
sem töluðu gamla málið urðu sjálfkrafa gamaldags vegna þess að þeir
gátu ekki talað um nýja tíma á máli feðra sinna og mæðra. Almenn störf
og æðri menntun fóru fram á nýju máli og þannig lokuðust hin deyjandi
mál inni í heimi fortíðar þar sem fólk gat setið saman við arineldinn,
sagt skemmti- og draugasögur, sungið kvæði og rifjað upp bernskuárin
en alls ekki metið fréttirnar, gert sér grein fyrir afleiðingum uppgötvana
Einsteins eða fjallað um heiminn, mál, bókmenntir og listir með tungu-
taki fræðanna.
Sumir segja kannski að það sé bættur skaðinn. Flestir noti einmitt
tungumálið bara í hversdagslegum samskiptum við sína nánustu og þar
beri afstæðiskenninguna og nýjustu hugsanir heimspekinga sjaldan á