Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 94
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
94 TMM 2006 · 4
ur með ís á eftir, en í hádegismat á laugardaginn var ljúffeng íslensk kjötsúpa
og rúgbrauð með kindakæfu. Þjóðlegt, hollt, bragðgott og vel útilátið.
Þórbergssetur vekur athygli þeirra sem aka hjá ekki síst vegna þess að lang-
veggurinn sem snýr upp að þjóðveginum er hannaður eins og bókahilla með
bókastoðum hvorum megin. Kilirnir eru af bókum Þórbergs en einhverjir
kverúlantar kvörtuðu yfir því að þykktin væri ekki alltaf í samræmi við hinar
raunverulegu bækur! Þarna er verulega góð aðstaða til að halda svona þing, þó
ekki megi þau verða miklu fjölmennari en þetta. Húsnæðið er alls um 300
fermetrar, eldhús og borðsalur sem jafnframt er fyrirlestrasalur, salur fyrir
staka sýningargripi sem komið er smekklega fyrir í glersúlum og á veggjum, og
svo viðamikil leikmynd þar sem gesturinn gengur í gegnum ævi Þórbergs –
byrjar í gömlu fjósbaðstofunni á Hala þar sem hann fæddist og endar í þjóð-
sögustofunni á Hringbraut 45 þar sem helstu skáldverk hans urðu til – þar á
milli er komið við meðal annars í Bergshúsi og Unuhúsi. Sveinn Ívarsson,
dóttursonur Þórbergs, er arkitekt að húsinu en Jón Þórisson leikmyndahönn-
uður sá um hönnun og uppsetningu sýningarinnar. Hann á líka hugmyndina
að bókakjölunum utan á húsinu og útfærsluna á henni. María Gísladóttir
bókmenntafræðingur og starfsmaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sá
um að afla efnis á sýninguna.
Fyrsti fyrirlesari á þinginu var Halldór Guðmundsson sem sendir nú á
jólamarkað samfléttaða ævisögu Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar, og
verður forvitnilegt að sjá hvernig landsmenn taka þeirri tilraun. Halldór hafði
þann óvenjulega hátt á í fyrirlestri sínum að nema staðar við ákveðnar dag-
setningar og segja frá því hvað Þórbergur og Gunnar höfðust þá að. Til dæmis
var fyrsti dagurinn sem hann tók 25. september 1912. Þá kom út í Danmörku
fyrsta bindi Borgarættarinnar sem skipti sköpum fyrir höfundarferil Gunn-
ars, og þann sama dag lagði Þórbergur af stað suður til móts við sitt fyrsta
stóra söguefni – þegar hann gekk framhjá bæ elskunnar. Eða hvað? Í alvör-
unni hitti hann hana (reyndar ekki heima hjá henni heldur úti á Borðeyri), en
sá í hendi sér að áhrifameira hefði verið ef honum hefði ekki tekist það. Og
þegar hann skrifaði Íslenskan aðal tók hann skáldskapinn fram yfir veru-
leikann.
Löngum hefur þjóðin skipst milli Halldórs Laxness og Þórbergs, verið ýmist
Halldórsmenn eða Þórbergsmenn, og Ingi Björn Guðnason sýndi hvernig Jón
Kalman Stefánsson vinnur skemmtilega úr þessum klofningi í fyrstu skáldsög-
um sínum. Soffía Auður Birgisdóttir skoðaði minnistækni Þórbergs sem þykir
aðdáunarverð. Kristján Eiríksson varpaði skæru ljósi á stíl Þórbergs í sínu
erindi, benti á að hann skrifar aðalsetningastíl eins og höfundar Íslendinga-
sagna, hliðskipaðan stíl fremur en undirskipaðan. Lýsingar hans á því hvernig
Þórbergur brýtur markvisst niður klisjur málsins voru mjög skemmtilegar, og
hvernig hann notar endurtekningar, óbreyttar og breyttar, leiðarminni og klif-
un, og hvernig ekkert er svo heilagt að hann sjái ekki hið kómíska í því. Fríða
Proppé skoðaði textatengsl milli Gyrðis Elíassonar og Þórbergs og loks afhjúp-
aði Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir tvíbenta afstöðu bókmenntastofnunar til