Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Síða 105
M y n d l i s t
TMM 2006 · 4 105
menntir um eðli og þróun nútíma- og samtímalistar skortir á íslensku. Þar er
svipað uppi á teningnum og sagt var um sjónvarpið; fæstir þora að gefa út
fræðirit um myndlist af ótta við að gjalda fjárhagslegt afhroð af slíku ævintýri.
Við Íslendingar almennt teljum okkur ekki þurfa að fræðast að ráði um mynd-
list og því sitja söfn og gallerí uppi með óseldar sýningaskrár í löngum
bunum.
Þetta er sérkennileg staða sem ber vott um að almennt taki menn myndlist
ekki af mikilli alvöru heldur meira sem yfirborðslegu gríni og glensi, sem verði
á vegi þeirra fyrirhafnarlítið og ábyrgðarlaust. Skynfræðileg samskiptalist líð-
andi stundar á það til að hverfa innan um aðra dægurviðburði á góðviðrisdegi
og blandast saman við götuleikhús og barnagaman án þess að láta nokkuð eftir
sig. Munurinn á Tóta trúði og listamanninum sem fremur gjörning fer þverr-
andi. Ef til vill er það góðs viti því þar með kemur atburðurinn til okkar sem
skrattinn úr sauðarleggnum án þess að nokkur dýpri merking eyðileggi gam-
anið. Ef marka má Walter Benjamin var það styrkur sagnameistarans að láta
hjá líða að ráða í framvindu sögunnar. Þannig gátu atburðirnir komið og farið
án íþyngjandi útskýringa, spennandi og ævintýralegir eins og þruma úr heið-
skíru lofti.6
Og Walter Benjamin hefur sjálfsagt getað glaðst, eða hitt þó heldur, þegar
Þriðja ríkið treysti sig í sessi, sama ár og hann lauk við Sagnameistarann, og
þýsk yfirvöld hófu beinar ofsóknir á hendur gyðingum, að sjálfsögðu umyrða-
laust og án allra haldbærra raka. Það var einungis forsmekkurinn að þeim
styrjaldarrekstri sem rak hann að lokum út í rauðan dauðann, langt um aldur
fram. Ef til vill hefðu útskýringar litlu breytt um þá ákvörðun hans að svipta
sig lífi þegar lestin til Lissabon var kyrrsett á landamærum Spánar og Frakk-
lands. Margt bendir þó til að hann hefði fengið að halda áfram ferð sinni
óáreittur og því hafi sjálfsvígið verið glappaskot. En í ógagnsæjum heimi þar
sem viðburðir koma og fara merkingarlaust rennur listin saman við lífið í
meiningarlausu leikhúsi fáránleikans. Þannig endurspeglaði ótímabær dauði
Walters Benjamin fáránleg örlög Lafði Makbeð frá Mtsensk, hinnar alræmdu
söguhetju Nikolaj Leskov. Ef marka má niðurstöður Bourriauds þá vinnur
skynfræðileg samskiptalist markvisst gegn skynlausri grimmd eins og þeirri
sem birtist í endalokum Katerínu Ismaílovu og Walters Benjamin.
Tilvísanir
1 Nicolas Bourriaud, Relational Aesthetics, Les Presses du réel, Dijon, bls. 13–14.
2 Walter Benjamin, Écrits français, nrf, Gallimard, bls. 209–210.
3 Ibid., bls. 211–212.
4 Ibid., bls. 155–156.
5 Serge Daney, „The Tracking Shot in Kapo“, birt í Trafic, nr. 4, í enskri þýðingu
Laurent Kretzschmar, P.O.L. Editions, 1992.
6 Op. cit., bls. 212–213.