Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Síða 110
Kv i k m y n d i r
110 TMM 2006 · 4
eins og segir í dómnefndaráliti, afar heillandi og áhrifamikil mynd sem sýnir
aðferðir barns við að lifa af stríð, sorg og framandi menningu. Tjáningarformið
er vítt og myndin sameinar sterka, raunsæja sögu og ljóðræna sýn, hugmynda-
flug og húmor. Hún gefur aðgengilega og skilningsríka mynd af raunverulegum
átökum og með því að sækja skapandi næringu í ólíka kvikmyndamenningu
leggur hún sitt af mörkum til að endurnýja ríkulega hefð norrænna kvikmynda
fyrir því að fjalla um bernsku og uppvöxt.
Zozo býr í Beirut þegar borgarastyrjöld geisar þar á níunda áratugnum.
Þrátt fyrir ástandið í borginni leikur hann sér við félagana, tekur þátt í prakk-
arastrikum og talar um stelpur, en handan við hornið er paradísin Svíþjóð þar
sem amma og afi búa og fjölskyldan ætlar að flytja til. En svo atvikast að Zozo
þarf að fara einn til Svíþjóðar sem reynist síður en svo vera paradísin sem hann
dreymdi um. Zozo tekst að fjalla um afskaplega sársaukafullt efni án þess að
skilja áhorfandann nokkurn tíma eftir hjálparvana. Við lifum okkur inn í
aðstæður Zozo á forsendum stálpaðs drengs, kynnumst sorg og ótta en upp-
lifum um leið fegurð og náungakærleik. Leikstjórinn Josef Fares fæddist sjálfur
í Líbanon árið 1977 og fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar 10 ára gam-
all og myndin er örugglega að einhverju leyti sjálfsævisöguleg; sum myndskeið
eru svo sterk og óvenjuleg og viðbrögð Zozo svo rétt – finnst manni – að það
er erfitt að ímynda sér annað en að Fares sé þarna að sækja í eigin minningar.
Ég vona að Zozo komi í íslenskt kvikmyndahús og að sem flestir sjái hana.
Mynd eins og Zozo segir okkur meira en endalaus fréttaskot um hvaða merk-
ingu stríð hefur fyrir venjulegar manneskjur og minnir okkur á að fólkið sem
hefur valið að yfirgefa fjarlæg heimkynni sín og flytja til Íslands gerir það
yfirleitt af góðri ástæðu.
P.s. Á Grensásvídeó er meira úrval norrænna kvikmynda en víðast hvar. Þar má
t.a.m. finna Drabet, sigurmyndina frá því í fyrra, sem og hinar tvær í þríleik Fly,
Bænken og Arven. Einnig má finna aðra norsku myndina frá því í fyrra, Vinterkys,
sem komst ansi nálægt því að vinna og fleiri ljúffenga skandinavíska kvikmynda-
mola.