Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Síða 111
TMM 2006 · 4 111
B ók m e n n t i r
Soffía Auður Birgisdóttir
Villugjörn öngstræti hjartans
Jón Kalman Stefánsson: Sumarljós og svo kemur nóttin – sögur og útúrdúrar. Bjartur
2005.
Það kom fáum sem fylgjast með íslenskum samtímabókmenntum á óvart að
Jón Kalman Stefánsson skyldi hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin í ár fyrir
bókina Sumarljós og svo kemur nóttin. Þeir sem þekkja til fyrri verka Jóns
Kalmans vita að hann er í fremstu röð íslenskra prósahöfunda og hefur sótt í
sig veðrið með hverri bók. Það var því neyðarlegt að fylgjast með viðbrögðum
illa lesinna fjölmiðlamanna þegar þeir, í tilefni afhendingar bókmenntaverð-
launanna, otuðu míkrafón sínum að Jóni Kalman með spurningar á borð við
þessa á vörunum: „Nú ert þú ekkert frægur, hvað þýða svona verðlaun fyrir
þig?“ Eflaust má deila um hvað það merkir að vera frægur en þess má geta að
tvær af fyrri bókum Jóns Kalmans hafa hlotið tilnefningar til Bókmenntaverð-
launa Norðurlandaráðs, Sumarið bakvið brekkuna árið 2001 og Ýmislegt um
risafurur og tímann árið 2004, og fjórar bækur hans hafa komið út í Þýskalandi
og hlotið þar rífandi góða dóma (þessu hefur þó ekki verið slegið upp í Séð og
heyrt).
Jón Kalman hóf feril sinn sem ljóðskáld og hefur gefið út þrjár ljóðabækur:
Með byssuleyfi á eilífðina 1988, Úr þotuhreyflum guða 1989 og Hún spurði hvað
ég tæki með mér á eyðieyju 1993. Ljóðrænn stíll hefur einnig alla tíð einkennt
prósaverk hans, sem eru orðin sex talsins, en í Sumarljós og svo kemur nóttin
má segja að þessi vandmeðfarni stíll springi út sem aldrei fyrr. Bókin hefur
undirtitilinn „sögur og útúrdúrar“ og á fyrstu síðu er efnisyfirlit með átta fyr-
irsögnum sem vekur upp þær væntingar hjá lesanda að hann sé að fara að lesa
smásagnasafn. Verkið er þó allt eins hægt að skilgreina sem skáldsögu því sög-
urnar tengjast innbyrðis í gegnum persónur og sögusvið sem er lítið þorp á
landsbyggðinni, nánar tiltekið á Vesturlandi. „Útúrdúrarnir“ eru hins vegar
stuttir millikaflar þar sem talað er beint til lesandans í fyrstu persónu fleirtölu;
sögumaður talar fyrir hönd þorpsbúa og staðsetur sig þar með mitt á meðal
þeirra: „Við ætlum ekki að segja frá öllu þorpinu, förum ekki hús úr húsi, það
myndir þú ekki afbera, en hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem
hnýtir saman daga og nætur, frá hamingjusömum flutningabílstjóra, dimmum
flauelskjól Elísabetar og honum sem kom með rútunni […]“ (9) Til að afmarka
þessa kafla, þar sem sögumaður talar beint til lesenda, eru þeir prentaðir með