Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 116
B ó k m e n n t i r
116 TMM 2006 · 4
hætti, þ.e. nokkurn veginn í tímaröð, en sá texti er fleygaður með sérköflum,
niðurstöðum ítarlegra rannsókna um ákveðna þætti eða stef í myndlist hans,
til þess fallin að dýpka skilning á henni.
Í bók Nesútgáfunnar um Jóhannes Kjarval verður þriðja leiðin fyrir valinu,
með minni háttar frávikum þó. Kristín G. Guðnadóttir ritar megintexta og
nýtur þar reynslu sinnar frá því hún var safnvörður að Kjarvalsstöðum, svo og
hins mikla æviannáls Kjarvals sem Ásmundur Helgason sagnfræðingur tók
saman fyrir nokkrum árum. Einnig eru í bókinni sérkaflar eftir Gylfa Gíslason
myndlistarmann um teikningar Kjarvals, Arthur C. Danto heimspeking um
þjóðarvitund í verkum listamannsins, Matthías Johannessen skáld og Silju
Aðalsteinsdóttur bókmenntafræðing um skáldið og manneskjuna Kjarval, en
þessir kaflar fleyga ekki megintexta Kristínar, heldur koma í beinu framhaldi af
honum, ásamt æviannál, heimildaskrá og öðru því sem heyrir til svona bók.
Mín vegna hefði mátt bæta við ritgerðum um guðspeki og guðstrú í verkum
Kjarvals, svo og um umritun hans á íslenskum þjóðsögum og ævintýrum, en
hvorttveggja vegur þungt í myndlist hans. En þá hefði stór bók orðið enn stærri.
Fælingarmáttur
Vöntun á yfirlitsriti um Kjarval helgast ekki einvörðungu af ytri aðstæðum;
afköst hans og myndlistarlegir útúrdúrar hafa beinlínis fælt menn frá því að
takast á við arfleifð listamannsins. Sá sem þetta skrifar hefur oftar en einu sinni
staðið frammi fyrir að því er virtist ókleifu fjalli þessarar arfleifðar. Í myndlist
sinni var Kjarval bæði módernisti og hefðbundinn – hallur undir átthagastefnu,
eins og Arthur Danto bendir réttilega á – og í sínum móderníska ham gat hann
verið allt í senn: symbólisti, expressjónisti, kúbisti, fútúristi, abstraktlistamað-
ur, jafnvel konstrúktífisti. Þegar við þykjumst loksins vita hvað hann er að fara,
fer hann undan í flæmingi, snýr upp á sig eða tekur upp sprell og „gilligogg“,
allt í því augnamiði að hleypa okkur ekki allt of nálægt sér.
Þannig gat Kjarval tryggt sér listrænt sjálfstæði og firrt sig um leið ábyrgð á
uppátækjum Giovannis Effreys eða annarra hliðarsjálfa sinna. En sjálfstæðið
og ábyrgðarleysið eru tvíeggjað vopn, eins og nánustu ættingjar listamannsins
fundu fyrir. Einn áhrifamesti – og um leið raunalegasti – kafli þessarar bókar
er frásögn Silju Aðalsteinsdóttur af listamanninum sem vissulega fann fyrir
„krafti heillar þjóðar“ innra með sér, elskaði þessa þjóð af heilum hug, en
reyndist ófær um að rækta náin samskipti við börn sín og barnabörn. Til síð-
ustu stundar var hann öllum ráðgáta. Eins og nærri má geta er ekki auðvelt að
komast til botns í slíku fólki.
Mér þykir aðdáunarvert hvernig Kristín B. Guðnadóttir heldur utan um
langan og flókinn listferil Kjarvals, án þess að tapa nokkurn tímann áttum. Á
greinargóðan hátt dregur hún fram allt það sem aukið getur skilning okkar á
því sem gerist í myndum hans á hverjum tíma ásamt því að halda til haga
persónulega þættinum, hleypur ekki útundan sér í fjarstæðukenndum tilgát-
um, ályktar af skynsemi um álitamál og kynnir auk þess til sögunnar ný og