Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Blaðsíða 122
B ó k m e n n t i r
122 TMM 2006 · 4
Eiríkur Örn Norðdahl
Meira að drekka, minni búllsjitt
Sölvi Björn Sigurðsson: Gleðileikurinn djöfullegi. Myndir: J. Ævar Grímsson. Mál og
menning 2005.
Ríflega 200 blaðsíðna ljóðabálkur Sölva Björns Sigurðssonar, Gleðileikurinn
djöfullegi, hlýtur að teljast til tíðinda í íslenskri ljóðlist 21. aldarinnar, ef ekki
hreinlega fyrir að vera fjári góður þá í það minnsta fyrir að vera einfaldlega það
sem hann er: Ríflega 200 blaðsíðna ljóðabálkur í þríliðahætti, ortur upp úr
vítisljóðum Dantes – af skáldi sem þar að auki hefur ekki náð þrítugu, á öld
sem kannast vart við rímuð ljóð nema frá kankvísum gamalmennum á borð
við Halldór Blöndal.
Einhvers staðar í óravíddum þessa forna tjáningarmáta finnur Sölvi strengi
sem gera mann glaðan, og færir einhvern heim – sem hingað til hefur, að mínu
viti, átt heima í sögubókum, tilheyrt lærdómi frekar en yfirvofandi samtíma
– til 21. aldarinnar, rúllar honum eins og rauðum dregli niður Laugaveginn og
býður manni að ganga í bæinn. Sölvi er svo sem ekki fyrstur samtímamanna
til þess að gera tilraun til þessa – ég minnist bæði hversdagssonnetta Kristjáns
Þórðar Hrafnssonar, og svo stakra tilrauna annarra manna – en það sem hefur
skort í þessum verkum, það er að spjótinu sé stungið beint í kraftaverkapunkt-
inn í lestri sjálfs mín, nær Gleðileikurinn að höndla.
Bálkurinn lifir í fullkomnum tvítíma, og svífur tignarlega yfir ógeðsgjá
fávitaskaparins, sem þó er undir honum allan tímann. Við lestur Gleðileiksins
var ég sífellt hræddur um að einhvers staðar myndi skáldinu fatast flugið og
bálkurinn fara niður til fagurfræðilegs helvítis tilgerðar og tíst-menningar. En
þetta er enginn brandari, hvorki góður né slæmur, heldur ljóðagerð af einlæg-
asta tagi þó sífellt sjáist í drullubaðið fyrir neðan: hina meinlausu ljóðlist sem
vart er smíðuð af annarri tilhneigingu en sjálfsfróun eigin bókmenntafræði-
legu hvata.
Sögusviðið er gegndarlaust fyllerí niður helvíti Laugavegs nútímans, og
allri umbúðamenningunni er tekið … tja … umbúðalaust, án fordildar eða
yfirlætis. Í Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante, sem inniheldur áðurnefnd
vítisljóð, er það Dante sjálfur sem djöflast í gegnum helvíti með félagann
Virgil upp á arminn, en í Gleðileiknum djöfullega er augljóslega nýtt skáld
tekið við af Dante: Mussju, sem er einhvers lags gerningur Sölva úr sjálfum
sér, en honum fylgir enginn Virgill heldur Dante. Og í stað Beatrísu er komin
Klara nokkur.
Að velja Laugavegsnótt í helvítisstað er ekki einvörðungu merki um dálitla
fyrirlitningu á þessari birtingarmynd Reykjavíkurborgar, því sömuleiðis er
verið að vísa til tilkomumikils sögusviðs úr einu stærsta ljóðverki sögunnar.
Þannig má finna í bókinni botnlaust vonleysi í garð borgarinnar (124):