Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Side 123
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 4 123
Hér vil ég ei una ævi minnar daga,
nei, allt nema það! Að líta þessa grettu
sem svipur Reykjavíkur orðinn er!
[…]
Hve breytt er um svip frá bernsku minni er daginn
ég bjartan leit hér fyrst, og þegar sullur
bjó inni í hundum, ekki í brjóstum manna.
Nú vaða um horfin blómastæðin bullur
og bölmóðsvaldar allar götur spanna.
Á sama tíma er eitthvað tignarlegt og rómantískt við allt þetta volæði, og þann-
ig tjáir jafnvel hátíðlegur búningur ljóðabálksins einhverja gríðarlega fegurð,
einhverja samsvörun við eymd allra tíma á sama tíma og Mussju mælir af
vörum fram lofsyrði um fortíð og eys skömmum yfir samtíð.
Það væri ljótt ef sá misskilningur kæmist á kreik af orðum mínum hér að um
þunga eða alvörugefna bók sé að ræða, þegar ég segi hana einlæga. Einlægni
þessa verks á nefnilega töluvert skylt við kaldhæðnislegan bölmóð, og það er
galsafengin ásökun fólgin í bókinni sem minnir á annað verk eftir íslenskan
höfund, sem að auki er sjanghæjaður í hlutverk einnar leikpersónu – en það er
ljóðleikurinn Draumar um Bin Laden eftir Steinar Braga, sem samkvæmt
langri skrá yfir persónur Gleðileiksins djöfullega er „Skáld; vinur Mussju“.
Þessi galsi er, í Gleðileiknum, ekki síst fólginn í rímleikfimi og ofsakátri ljóð-
rænu (100):
[…] Hann límdi
nú augu sín á gamlan vin og grátur
var gleymdur þegar sá hann hver þar stímdi
í brúnum, nettum latínklæðum, kátur,
kneyfandi öl upp Bankastrætið: „Mussju!
Parísarmussju!“ Mussju hrópar, „átur
ég egndar finn á eymd í sálu! Hvussju
ósegjanlega er stórkostlegt að sjá þig
og allt of langt um liðið, vinur!“ „Sussju-
suss,“ segir Parísarmussju.
Sölvi hefur áður fengist við bundinn kveðskap, með nokkuð síðri árangri en í
Gleðileiknum. Í bókunum Ást og frelsi (2000) og Vökunætur Glatunshundsins
(2002) er vissulega að finna fima spretti, en báðar gjalda þær þó fyrir að taka
sjálfar sig of alvarlega, fyrir ákveðna væmni (sem þarf þó ekkert að vera galli)
og skortir í raun þetta kjöt sem finna má í Gleðileiknum, þessa kátínu og heift
sem gefur þyngdinni merkingu. Hefði Sölvi í því efni mátt taka til fyrirmynd-
ar orð ungskálds nokkurs sem í Gleðileiknum situr við drykkju á bar, í félagi
við annað eins, þar sem þeir bölsótast út í ritlaunanefnd og rassgataræstingar,
og brýtur upp samræðuna með orðunum: „Meira að drekka, minni búllsjitt.“