Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 124
B ó k m e n n t i r
124 TMM 2006 · 4
Davíð A. Stefánsson
Beðið eftir Guði
Halldóra Kristín Thoroddsen: Gangandi vegfarandi. Mál og menning 2005.
„Dæmdu ekki bókina eftir kápunni,“ sagði maðurinn og hitti naglann á höf-
uðið. Bókarkápa er andlit og varla hjá því komist að fyrsti hluti hverrar lestrar-
reynslu sé einmitt lestur augnanna á andlitinu. Gangandi vegfarandi eftir
Halldóru Kristínu Thoroddsen hefur illu heilli fráhrindandi kápu og gerði að
verkum að ég ýtti bókinni frá mér lengi vel, hafði einfaldlega ekki trú á að hún
gæti innihaldið nokkuð af viti. Nú er það ekki svo að ég leggi í vana minn að
gagnrýna kápuhönnun þegar fyrir liggur að gagnrýna bækur – en í þessu til-
felli get ég, eins og sagt er, ekki orða bundist. Aukinheldur er frágangur slakur
og bókin farin að hrynja í sundur strax við þriðja lestur! Svona gengur maður
ekki frá vandlega rituðum orðum, og alls ekki hjá rótgrónu og risastóru bóka-
forlagi. Rétt eins og ljóð þurfa að standast tímans tönn og eiga ekki að hanga
saman af veikum vilja skáldsins eiga ljóðabækur ekki að hanga saman á lélegri
límingu.
Að þessu sögðu er enn ánægjulegra að geta tilkynnt að innihald bókarinnar
er fallegt, vandað og spennandi. Gangandi vegfarandi skiptist í þrjá tölusetta
hluta. Upphafsljóðið „Engill“ sem stendur fyrir utan bókarhlutana er sterkur
og hnitmiðaður texti og tengsl hans við hið óskrifaða blað og fæðingu gerir
hann að upphafi og grundvelli alls sem á eftir fylgir:
Síríus blikaði á suðurhimni, hvítari og skærari en allar
hinar. Undir óravíddum hvolfsins lá barn á bakinu.
Mjóslegið mannabarn undir kvöldhimni. Kyrrðin
magnaði krafshljóðið undan sperrtum útlimum sem
teiknuðu vængi og kyrtil í mjúka fönnina. Við hlið
engilsins skildi barnið eftir teiknaða hörpu og
klöngraðist uppá hæð til að líta verk sitt. Frá lífvana
engilmynd og þöglu hljóðfæri lá sporaslóð til
höfundar sem starði og beið, hátíðlegur og máttfarinn.
Þá gerðist undrið sem hann hafði vænst í
barnaskapnum. Engillinn rótaði sér, seildist í
hljóðfærið, blakaði vængjum og hóf sig á loft inní
svart ómælið. Hvítur sem kyndill. Stakir tónar bárust
um festinguna.
Ljóðmælandi bókarinnar er gjarnan persónulegur og nokkuð beinskeyttur –
það er gagnrýnistónn í mörgum ljóðum og stundum brestur á með látum: „[…]
við murkum og maukum/til að mjaka okkur nær/kjötkötlunum//göfgum
þetta/í háleitar hugsjónir um/fegurra mannlíf//og hnötturinn snýst og snýst/og