Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 127
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 4 127
Guð,
okkur hefur lengi grunað að hver mótsögn sameinist
andstæðu sinni. Í djúpum tíma verðum við eitt,
þar til við springum aftur
úr hlátri.
(52)
Ljóðmælandi bókarinnar hefur leitað að Guði og fundið sína persónulegu
útgáfu af honum í öllu hinu smáa, djúpt handan hins línulega tíma og handan
röklegs skilnings. Ljóðmælandi hefur fundið sinn eigin skilning, sem gerir
bókina glaðlega og bjartsýna þrátt fyrir gagnrýnina, en það er ekki laust við að
hann bíði, eins og Guð, eftir víðtækari byltingu – að fleiri komi niður á jörðina
og ummyndist í gangandi vegfarendur:
Síðan veröldin var sögð hefur þú beðið þess
augnabliks að hún vakni, líti sjálfa sig, lostin skilningi,
í einu alsherjar andvarpi; aha!
(45)
Einar Már Jónsson
„Skírður Kan hinn ríki Tatarakonungur“
Sverrir Jakobsson: Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100–1400. Háskólaútgáfan 2005.
Um ýmis tímabil sögunnar gildir það, að f lestar eða allar ritaðar heimildir
sem snerta þau á einhvern hátt eru löngu þekktar, þær hafa verið gefnar út í
fræðilegum útgáfum, f lokkaðar og settar á skrár og fræðimenn hafa síðan
velt þeim fyrir sér á margvíslegan hátt, kannski kynslóð eftir kynslóð. Hverf-
andi líkur eru á því að nokkrar f leiri ritaðar heimildir sem snerta þetta
ákveðna tímabil muni nokkurn tíma finnast, og því marka þessar rituðu
heimildir sjóndeildarhring þess. Þegar svo er komið kynnu menn að álykta
að eftir þær margvíslegu rannsóknir sem gerðar hafa verið séu öll kurl komin
til grafar, nú viti menn allt sem yfirleitt sé hægt að vita um sögu þessa tíma-
bils og því rétt að snúa sér að öðru; er þetta stundum sagt í heyranda hljóði.
En það er rangt. Aðalatriðið í sagnfræðirannsóknum eru ekki heimildirnar
sem slíkar heldur hitt hvernig menn kunna, eins og sagt er, að „spyrja“ þess-
ar sömu heimildir. Með því að nálgast þær á nýjan hátt, leggja fyrir þær aðrar
spurningar en áður höfðu verið bornar upp, geta fræðimenn stundum end-
urnýjað söguvísindin á róttækan hátt og leitt í ljós þætti í fortíðinni sem áður
höfðu verið huldir.