Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Síða 128
B ó k m e n n t i r
128 TMM 2006 · 4
Þetta gerir Sverrir Jakobsson í riti sínu Við og veröldin. Meðal þeirra heim-
ilda sem hann styðst við eru „alfræði“ ýmis konar í íslenskum miðaldahand-
ritum, svo og fræðiklausur af margvíslegu tagi sem er að finna innan um
annað í fornsögum og öðru. Með nokkrum undantekningum höfðu fræði-
menn ekki sýnt þessum skrifum ýkja mikinn áhuga, og þá aðallega fengist við
að kanna upprunann: hvaðan þessi fræði öll væru fengin, hvað Íslendingar
hefðu þekkt af miðaldavísindum Evrópu, hvað þeir hefðu lesið og lært og hvað
þeir hefðu e.t.v. rannsakað og hugsað sjálfir. Frá því sjónarmiði mátti segja að
hver texti, hvert „alfræðihandrit“ væri vandamál út af fyrir sig, og þegar efni
sem eitt handrit, t.d. Hauksbók, hafði að geyma var mjög fjölskrúðugt var það
í verkahring margra fræðimanna og ekki víst að þeir væru hver um sig að
renna mikið augunum að því sem nágranninn var að gera. Frásagnir frá
öðrum löndum hafa svo verið notaðar sem heimildir um ferðalög. En Sverrir
Jakobsson fer aðra leið, hann skoðar þessa texta í heild og ber upp miklu víð-
tækari spurningu sem áður hafði legið í láginni: hvað segja öll þessi fornu
fræðiskrif um heimsmynd Íslendinga á gullöld íslenskra bókmennta, nánar
tiltekið á árunum 1100 til 1400?
Þetta er óneitanlega flókin spurning, nauðsynlegt er að gefa henni sem skýr-
ast innihald, og það leitast höfundur við að gera í fyrsta hluta ritsins sem snýst
að allverulegu leyti um svokallaða aðferðafræði. Sú „heimsmynd“ sem hann
fjallar um er hugmynd Íslendinga á miðöldum um umheiminn nær og fjær,
landafræði hans og sögu, viðhorf þeirra til hans og þá einkum það hvernig þeir
litu á sjálfa sig gagnvart öðrum þjóðum, Söxum, Írum, Frankismönnum,
Grikkjum, Serkjum, Skrælingjum, einfætingum, blámönnum, risum og mörg-
um fleiri, og skilgreindu sjálfa sig í þessari heimssýn. Verkefnið er vandasamt,
því hvergi er að finna nein fornrit þar sem brugðið er upp neinu því sem kynni
að líkjast heildarmynd Íslendinga af veröldinni, og því er nauðsynlegt að tína
upp búta hér og þar í sundurleitum verkum og reyna svo að raða þeim saman.
En þá vakna ýmsar spurningar sem erfitt er og kannski að vissu leyti ókleift að
svara, t.d. sú hverjir þeir hafi verið sem gerðu sér þessa mynd af heiminum, var
það að einhverju leyti almenningur eða á hinn bóginn fámennar stéttir, klerk-
ar, einhverjir höfðingjar eða menntaðir leikmenn og þá hve stórir hópar þeirra?
Einn hluti af svarinu er sá, að heimsmyndin hafi að verulegu leyti verið mótuð
af klerkum sem áttu vegna menntunar sinnar greiðan aðgang að evrópskum
fræðiritum á latínu. En það er vitanlega ekki allt og sumt. Sverrir gerir þá
merku athugasemd (bls. 61) að gróska í þeim „alfræðiritum“, sem hafa að
geyma margvíslegan fróðleik, falli saman við blómaskeið íslenskra hirðmanna
á árunum 1250–1320, en í þeim hópi voru m.a. Sturla Þórðarson og Haukur
Erlendsson. Vera má, að ýmsir þeir sem Noregskonungur herraði hafi litið á
það sem stöðutákn að vera sem fróðastir um margt. En það gat vitanlega dreg-
ið dilk á eftir sér. Þegar þekking er til staðar í einum geira þjóðfélagsins má
alltaf búast við að hún dreifist út, til manna sem eru utan við geirann en opnir
og fróðleiksfúsir. Lærðir menn skrifa bækur á norrænu og kenna öðrum, og
þannig gátu höfundar og aðrir sem voru ekki sjálfir latínulærðir öðlast ein-