Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 130
B ó k m e n n t i r
130 TMM 2006 · 4
undur hennar telur að Grænland hljóti að vera tengt við önnur meginlönd
(annars væru þar ekki hreindýr), og segir svo á öðrum stað:
Það mæla menn og víst að Grænaland liggi á ystu síðu heimsins til norðurs og
ætla eg ekki land út úr kringlu heimsins frá Grænalandi nema hafið mikla það er
umhverfis rennur heiminn. Og það mæla menn þeir sem fróðir eru að það sund
skerist í hjá Grænalandi er hið tóma haf steypist inn í landaklofa og síðan skiptist
það með fjörðum og hafsbotnum allra landa millum þar sem það nær að renna inn
í kringlu heimsins.
Þessi heimsmynd, sem er í senn frumleg og klassísk, er allrar athygli verð og
gæti orðið tilefni til margvíslegra bollalegginga. Sverrir Jakobsson ályktar af
þessu (bls. 275–276) að sögur um landafundi hafi ógnað heimsmyndinni, og
því hafi verið nauðsynlegt að finna nýfundnum löndum stað innan kaþólskrar
heimsmyndar:
Þrátt fyrir allt komu Vínlandsferðir ekki nægilega miklu róti á huga Íslendinga til
að þeir færu að efast um sína eigin heimsmynd. Þeim kom aldrei til hugar að þetta
væru ný meginlönd, eða eitthvað annað en eyjar eða lönd sem voru föst við Afríku
eða Norður-Noreg. Ekkert rúm var fyrir ný meginlönd á þeirri jarðarkringlu sem
Íslendingar þekktu. Í þeim skilningi fundu Íslendingar aldrei Ameríku.
Þetta má til sanns vegar færa. Hins vegar mun hafa verið til heimsmynd í forn-
öld og á miðöldum, þar sem hægt hefði verið að finna nýjum meginlöndum
stað. Samkvæmt henni voru tvö úthöf á jarðarhnettinum eins og belti utan um
hann, annað meðfram miðbaug en hitt utan um heimskautin. Milli þeirra voru
svo fjögur meginlönd, tvö á norðurhveli og tvö á suðurhveli, nokkurn vegin
hringlaga öllsömun, og var kringla heimsins sú er mannfólkið byggvir eitt
þeirra, hin þrjú voru óbyggð og alla vega loku fyrir það skotið að nokkur gæti
komist þangað. Það jaðraði við villutrú, og jafnvel meira en það, að halda því
fram að til væru einhverjir andfætlingar. Þetta kann að vera ástæðan fyrir því
að mönnum kom ekki til hugar, að því best verður séð, að Vínland kynni að
vera hitt meginlandið á norðurhveli jarðar – ef þeir þekktu þá þessa kenningu
á annað borð. Í framhaldi af þessu öllu má svo halda því fram, að Vest-
urlandabúar hafi heldur ekki fundið Ameríku, fyrr en það var um seinan og
byssuvæddir barbarar búnir að leggja í rústir þá ákaflega frumlegu og merki-
legu menningu sem þar var að finna. Að þessu leyti voru norrænir menn verð-
ugir fyrirrennarar, þótt þeir hefðu að vísu ekki byssur og gætu því ekki orðið
sérlega afkastamiklir í manndrápunum.
Innan þessa heims sem þannig var búið að binda í fornt og traust kerfi voru
Íslendingar duglegir við að ferðast, a.m.k. á fyrri hluta þess tímabils sem Sverr-
ir Jakobsson fjallar um. Þeir fylgdust allvel með atburðum þótt fjarlægir væru,
eins og klausa í Annál Resensbókar er til vitnis um: „Skírður Kan hinn ríki
Tatarakonungur“. En að sumu leyti var þekkingin undarlega gloppótt. Sverrir
Jakobsson bendir þannig á að Íslendingar virðist hafa haft harla litlar spurnir
af klofningnum milli grísk- og rómversk kaþólskra manna, sem varð endan-