Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 133
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 4 133
hverju öðru en hún raunverulega var. Vera einhver önnur, prinsessa, strákur
eða gáfnaljós. Eitthvað af því sem ég vildi að hefði verið, en var ekki. Bara
vegna þess að mér þótti þetta óspennandi og erfitt tímabil. En þarna var komin
saga sem var í stórum dráttum skrifuð um mig en dró upp allt aðra mynd. Var
ekki kominn tími til að sætta sig við fortíðina? Ég gat litið til baka og hlegið að
svo mörgu þegar ég hætti að gerilsneyða minningarnar. Ég held að ég hafi
staðið eftir sem svolítið heilsteyptari manneskja.
Mamma, sem bjó á heimilinu, las bókina sér til mikillar ánægju. Hún var
alin upp í sveit, en það stóð ekki í vegi fyrir því að hún gæti lifað sig inn í sög-
una og fundið barnið í sjálfri sér. Það rifjaðist margt upp sem ég hafði aldrei
heyrt hana segja frá, hvað þá börnin mín.
Við fengum líka að heyra um alvarlegri hluti, stríðsárin sem voru hennar
sokkabandsár, ef svo má að orði komast. Hún giftist honum pabba sem var
sjómaður og hlaut vota gröf einhversstaðar suður af Grænlandi eftir aðeins sex
ára hjónaband.
Og það rifjaðist upp fyrir mér hvað ég átti bágt með að skilja að ég gat ekki
eignast systkini af því að það vantaði pabbann. Seinna varð ég fegin þegar ég
upplifði með vinkonu minni skömmina yfir því að allt þorpið vissi hvað for-
eldrar hennar hefðu verið að bauka þegar von var á nýju barni í hópinn.
Ég losnaði þó við það vandamál.
Við áttum margar góðar stundir, kynslóðirnar þrjár, við lestur og sögur.
Spurningar vöknuðu og reynt var að finna svör við þeim, og mikið var gott að
geta horft til baka og brosað.
Úr sýningu Þjóðleikhússins á Sitji guðs englar.