Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Side 134
B ó k m e n n t i r
134 TMM 2006 · 4
„Hvaða stríð var þetta amma, var þetta þorskastríðið?“ spurði sonardóttir mín
og nafna þegar við gengum út úr Þjóðleikhúsinu á sunnudaginn. Við höfðum
að sjálfsögðu brugðið okkur þangað til að horfa á Heiðu og fjölskyldu hennar
á fjölunum. Mér var óneitanlega brugðið. Mér fannst ekki eðlilegt að nafna
mín væri svona fáfróð um atburði sem stóðu mér svo nærri, því ekkert hefur
mótað líf mitt meira en „blessað stríðið“. Ég ætlaði að fara að segja „hvað er það
eiginlega sem þú lærir í skólanum, og ert þú búin að gleyma því að stríðið tók
hann langafa þinn?“ Þá heyrði ég kunnuglega rödd kalla í eyrað á mér: „Hvurn
sjálfan djö… þykist þið vera að læra í skólanum og vitið svo ekkert í ykkar
haus?“
Auðvitað var ég enn þá undir áhrifum af leikritinu. En var þetta ekki hann
afi minn lifandi kominn, og lá ekki á aðfinnslunum frekar en hann var
vanur.
Er þetta ekki það sem kallað er að hitta sjálfan sig fyrir?.
Það er ekkert svo langt síðan ég stóð í sporum nöfnu minnar og var ekki eins
sterk í fræðunum og afa þótti hæfa. Ég man ennþá skömmina þegar ég var að
falla á þessum prófum hans. Sjálfur hafði hann ekki komist í skóla frekar en
margir af hans kynslóð vegna fátæktar og fannst það hróplegt vanþakklæti af
okkur afkomendum hans ef við létum eitthvað fara framhjá okkur sem á borð
var borið í kennslustundum.
Ég tók þegjandi í höndina á nöfnu minni og þegar heim var komið settumst
við niður og ræddum um upplifun okkar í leikhúsinu.
Við fórum inn í húsið hennar Heiðu, ég hagræddi leikmyndinni svolítið og
síðan sagði ég henni frá þessum tímum eins og ég lifði þá. Í sporum Kela í
Hliði, sem fékk ekki pabba sinn aftur af sjónum.
Það er erfitt að útskýra fyrir barni sem á tölvu, sjónvarp, ipott og hvað þetta
heitir nú allt, að mig hafi dreymt um að eignast skrúfblýant sem kostaði tvær
krónur og verið lengi að safna mér fyrir honum, og þegar ég hafði loksins nurl-
að upphæðinni saman voru þeir búnir í búðinni og komu ekki aftur. Að
skólafötin mín, sem fram eftir öllu voru skokkar eða pils, hafi venjulega verið
saumuð upp úr gömlum kápum eða einhverjum fötum af mömmu eða vinkon-
um hennar, og það var eins gott að sætta sig strax við sniðið og litinn því að
flíkina varð ég að umbera þar til ég óx upp úr henni.
Ég fann hve mikla hjálp þessi einstaka aðstaða veitti okkur og við áttum
þarna góða stund saman í fortíðinni.
Barnabörnin mín vaða ekki snjóinn með bert á milli, í lélegum stígvélum
eða gúmmítúttum, það hefur aldrei hvarflað að þeim að hafa áhyggjur af því
að ekki sé til nógur matur eða föt til að fara í, ekki heldur að systkinin verði of
mörg né að þau hafi hvergi afdrep fyrir hugsanir sínar og athafnir. Miklu frek-
ar hið gagnstæða. En vandamál þeirra eru þarna, þau eru bara önnur en mín
voru. En það er mitt að skilja þau, í það minnsta að umbera þau. Og gera mitt
til að brúa þetta leiðinda bil sem kallað er kynslóðabil og ætti ekki að vera til á
nokkru heimili.
Til þess eru bækurnar hennar Guðrúnar kjörinn vettvangur.