Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Page 25
TMM 2007 · 2 25
Þórarinn Eldjárn
Bíllinn
Ég hef alltaf verið Staðarskálamaður. Sleppi því aldrei að stansa þar
á leið norður og norðan. Ég skil ekki þá sem velja Brú. Ég get ekki
einu sinni hugsað mér að koma þar við þó leiðin liggi vestur. Bíð
frekar með það alla leið til Hólmavíkur. Mikilvægi Staðarskála
finnst mér reyndar enn hafa aukist með Hvalfjarðargöngunum.
Það tekur því ekki lengur að koma við í Borgarnesi en Staðarskáli
heldur sínu og gott betur sem hinn eðlilegi miðpunktur.
Það var því algjörlega venju samkvæmt að ég renndi þar inn á
planið þennan dag í fyrrasumar. Ég var á norðurleið, einn á ferð.
Slæðingur af bílum var á stæðinu við skálann, auk þess allmargir
flutningabílar langsum nær þjóðveginum. Rúta var nýlent með
krakka í skólaferðalagi. Ég lagði jeppanum yst í stæðið sunnan til
við skálann, rölti svo inn, skrapp fyrst á snyrtinguna í kjallaran
um, tók mér eintak af Bændablaðinu á leiðinni upp, en fór svo inn
í veitingasalinn og fékk mér kaffi.
Ég sá engan sem ég þekkti þarna í salnum – hafði svo sem ekki
búist við því heldur – og settist einn úti í horni. Við næsta borð
sátu nokkrir flutningabílstjórar og báru saman bækur sínar. Flest
ir hinna virtust fjölskyldufólk á ýmsum aldri, mestmegnis dreif
býlingar sýndist mér, að tína í sig hamborgara og franskar. Á reyk
ingasvæðinu við suðurgluggana sátu einhverjir lánleysingjar og
svældu. Skólakrakkarnir voru frammi í sjoppunni með pylsur og
kók.
Sjónvarpið var í gangi og sumir matargestirnir gjóuðu á það
augum gegnum hamborgaraglýjuna. Á veggnum fyrir neðan
skjáinn hékk innrammað ljóð eftir Arnþór Christiansen, gamlan
kunningja minn, einhver lofgjörð um Staðarskála sem prestur í
sveitinni hafði skrautritað fyrir veitingamanninn. Arnþór ræfill
inn var víst óskaplega stoltur af þessu.