Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Síða 30
30 TMM 2007 · 2
Helgi Hálfdanarson
Sjálf Völuspá
Í Tímariti Máls og menningar 2007.1. birtist grein eftir forstöðumann
Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, dr. Véstein Ólason,
og nefnist „Maddaman með kýrhausinn og Völuspá“. Þar svarar hann
nokkrum spurningum sem ég hafði beint skriflega til þeirrar stofnunar
vegna bókar minnar Maddömunnar með kýrhausinn (2.útg. MM 2002),
en sú bók fjallar um Völuspá og handrit hennar.
Þess er fyrst að geta, að dr. Vésteinn gerði vel að senda mér grein sína
áður en hún birtist í TMM. En sé gert ráð fyrir lítils háttar framhalds
umræðu í tímaritinu, hlýtur hún að stikla á ársfjórðungum, og þar sem
undirritaður er kominn hátt á tíræðisaldurinn, er viðbúið að svör hans
framvegis verði einungis: Kalt er við kórbak.
Undir lok greinar sinnar segir dr. Vésteinn: „Allir sem glíma af alvöru
við að skilja kvæði eins og Völuspá eiga heiður skilinn. Það á Helgi Hálf
danarson líka fyrir bók sína. Hann greinir á við eldri fræðimenn, og mig
greinir á við hann og aðra. Þessi ágreiningur er að mínum dómi mikil
vægur fyrir líf kvæðisins í menningu okkar.“
Svo mælir forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum
fræðum. En áratugum saman hafa „íslenzk fræði“ þumbazt við að þegja
tilgátu Helga Hálfdanarsonar um Völuspá í hel, og verður það naumast
skilið á annan veg en þann, að þar sé, að beztu manna yfirsýn, allt svo
augljós firra, að ekki sé orðum að eyðandi.
Á liðnu vori kom í bókabúðir smábók frá Máli og menningu og nefn
ist Völuspá. Þar birtist hið merka fornkvæði sem ber sama heiti, en
hefur hlotið þá endurskoðun sem rakin er í bók minni Maddömunni
með kýrhausinn. Kvæðinu fylgir leiðsögn um efni þess, frumlega
myndskreytt af Snorra Frey Hilmarssyni leikmyndateiknara. Um kver
þetta hefur engum úr fræðageiranum þótt sæmandi að stynja upp
orði.