Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Page 46
46 TMM 2007 · 2
Auður Eydal
Þar sem himinninn nemur
við fjallsræturnar
hæsti staður
mannanna í árdaga
hæsta ker sem
geymdi þögnina
líf úr steini
eftir allt þetta líf
Pablo Neruda: Hæðir Machu Picchu.
Þýð: Guðrún H. Tulinius.
Fyrir rúmu ári kom út lítil bók á vegum Proxima, varla meira en kver að
umfangi, en innihaldið þó svo miklu, miklu meira en útlitið bendir til.
Hér er um að ræða kvæðabálkinn „Hæðir Machu Picchu“, sem er hluti
af Canto General eftir Nóbelskáldið Pablo Neruda frá Chile. Inngang
ritar Isabel Allende og er frumtexti hennar svo og ljóðanna birtur við
hlið íslensku þýðingarinnar.
Fallegt en þó yfirlætislaust útlit, þýðing Guðrúnar H. Tulinius og
myndskreytingar Rebekku Ránar Samper og Antonio Hervàs Amezcua
gera bókina að sannkölluðum kjörgrip. Að auki fylgir henni (í anda
dagsins) DVD myndverk „um áhugaverða sýn á Machu Picchu“, eins og
segir á bókarkápu.
Með þessum línum langar mig til að vekja athygli á þýðingunni og
baksviði ljóðabálksins.
Leyndardómurinn í kringum borgina týndu togaði í skáldið og
Neruda „hlýddi kallinu“. Hann gekk erfiða leið eftir hinum forna Inka
stíg í átt til Machu Picchu hátt uppi í Perúhluta Andesfjalla og afrakst
urinn varð þessi. Ljóðin geyma litríkar náttúrulýsingar, þar sem saga
kynslóðanna, sjóðheitar suðuramerískar tilfinningar og stórbrotið
umhverfið verður innblástur og uppspretta andagiftar skáldsins, sem
ljóðaunnendur geta nú notið í frábærri íslenskri þýðingu.