Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Page 50
A u ð u r E y d a l
50 TMM 2007 · 2
fór mannfjöldinn niður í 111 manns í lok 19. aldar, en þar búa í dag um
3000 manns.
Í Canto General yrkir Neruda líka um Páskaeyju, þar sem frumbyggj
ar hjuggu til og reistu bergrisa – Moai – sem enn þá standa í röðum út
til stranda í stóískri ró. Þeir horfa inn til lands og ekki mátti fullgera
stytturnar fyrr en þær voru komnar á sinn stað. Þá fyrst mátti setja
hvítan kóralsalla í augun og búa til augasteina úr hrafntinnu, því í aug
unum býr Mana – alheimskrafturinn.
Bergrisarnir voru meitlaðir í heilu lagi út úr berginu í hlíðum eld
fjallsins Ranu Raraku (sumir fyrir meira en 1000 árum) og fluttir þaðan
út á strönd á sérstaklega helgaða og vandlega undirbyggða staði, sem
nefnast Ahu. Þar voru þeir tilbeðnir og hafa líklega í og með átt að gegna
hlutverki landvætta til varnar landi og lýðum þó að það hafi síður en svo
dugað gegn aðvífandi óvinum í gegnum aldirnar.
Það sem hér blasir við augum er ráðgáta rétt eins og leyndardómur
Machu Picchu. Það hvernig stytturnar voru fluttar um langan veg án
allra hjálpartækja yfir ógreiðfært land er illskiljanlegt okkur nútíma
mönnum og aðeins hægt að smíða kenningar þar um.
Til að gefa hugmynd um umfangið er óhjákvæmilegt að nefna nokkr
ar óskáldlegar tölur:
Meðalþungi þeirra 288 bergrisa sem komust á áfangastað er meira en
12 tonn, en sumir eru miklu þyngri eða allt að 82 tonnum – stærsti ris
inn sem er um 10 m hár. Í steinnámunni eru svo miklu stærri styttur
hálfgerðar, hin stærsta yfir 20 m löng.
Það er einkennileg tilfinning að standa í hlíðum eldfjallsins, þar sem
er eins og tíminn hafi storknað. Fjöldi bergrisa er þar í „vinnslu“ (nærri
400), öðrum er verið að „fleyta“ niður fjallið eða þeir eru komnir áleiðis
til strandar (92). Hvað gerðist? Af hverju var hætt við í miðjum klíð
um?
Ekki að undra þó okkur sé orða vant. Og þá taka skáldin við.