Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Side 77
E n n á ö l d g l æ p s i n s
TMM 2007 · 2 77
vík samtímans. Aðalsöguhetjurnar, Halldór og Dísa, leigja saman litla
íbúð, þau eru vinir en ekki kærustupar og lifa tiltölulega tíðindalitlu lífi.
Það fer að draga til tíðinda þegar Dísa eignast kærasta, kynjafræðinem
ann Högna, sem við fyrstu sýn virðist fullkominn að öllu leyti. Við þetta
leggst Halldór í kör, hættir að fara út, en situr við að prófa á sjálfum sér
eituráhrif pottaplöntu sem Dísa hefur flutt inn á heimilið.
Þetta er ekki jafn krúttleg skáldsaga og hún lítur út fyrir við fyrstu
sýn. Halldór er sögumaður sumra kaflanna en aðrir segja frá Dísu í
þriðju persónu. Þessir kaflar fara smám saman að vekja með manni ugg,
það er aldrei á hreinu hvort þeir spretta úr ímyndun og ofsóknarkennd
Halldórs eða ekki. Smám saman afhjúpa persónurnar svo sjálfar sig,
ofbeldi og óheilindi ásamt draugum úr fortíðinni fara á kreik.
Kjarni sögunnar reynist vera traumatísk reynsla sem bindur aðal
persónurnar saman en kemur um leið í veg fyrir að þau nái að bindast
hvort öðru eða öðru fólki, þau eru föst í einhvers konar sjálfseyðing
arspíral sem dregur þau niður á við, hratt og örugglega. Þetta er saga af
falli, enda vísar plantan og át Halldórs á henni á einhvern óljósan hátt
til syndafallsins. Eitur fyrir byrjendur fjallar líkt og fleiri skáldsögur frá
síðustu árum um glæpi og refsingar sem virðast tilviljanakenndar.
Groddalega einlægur frásagnarháttur bókarinnar gerir að verkum að
Eiríkur kemst upp með að fjalla um efni sem í höndum einhverra gæti
orðið bæði væmið og ósmekklegt.
Af Nýhilbókunum þremur heillaði Fenrisúlfur Bjarna Klemenz mig
minnst. Þar er dregin upp gotnesk og myrk mynd af skemmtanalífi ungs
fólks í Reykjavík, en sagan berst líka inn á internetið og norræn goða
fræði reynist leika þar stórt hlutverk. Bjarni færist mikið í fang í stílnum
og heimur sögunnar er á köflum býsna magnaður, en áherslan er öll á
leikmynd og búninga, botninn dettur stundum úr stílnum og persónu
sköpunin og plottið eru hálf hornreka í bókinni.
Í Skuldadögum Jökuls Valssonar er sömuleiðis lýst undirheimum
Reykjavíkur en með gerólíkri aðferð og sennilega markmiði líka. Þar er
lýst nokkrum dögum í lífi dópsmásalans Matta sem lendir í því að týna
kókaínpakka sem hann á að standa skil á. Sagan er síðan mikil rússíbana
reið um undirheimana og inn á milli setur Matti á miklar ræður um allt
milli himins og jarðar sem honum finnst mega betur fara í íslensku
samfélagi; þessar ræður hægja stundum á frásögninni og eru satt að
segja fremur lítið spennandi. Það er ekki sami ferskleikinn og nýja
brumið yfir þessari bók og fyrstu sögu Jökuls, Börnunum í Húmdölum
frá 2004, en hann hefur hæfileikann sem þarf til að semja skáldsögur, er
flinkur stílisti og kann að spinna söguþráð.