Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Page 120
120 TMM 2007 · 2
B ók m e n n t i r
Böðvar Guðmundsson
Aldasöngur
Hannes Pétursson: Fyrir kvölddyrum. Mál og menning 2006
Í rödd hans var ofið þeim kyrrlátu kvöldum á vorin
er kliður lækjanna dýpkar hjá bökkum og golan
fer þýð yfir holtin . . .
Þannig orti Hannes Pétursson um þulinn gamla í sinni fyrstu ljóðabók,
Kvæðabók, sem kom út fyrir rúmlega hálfri öld. Þá varð öllum ljóðaunnendum
ljóst – kannski ekki öllum, en flestum – að hér var eitthvað óvenjulegt á ferð
inni, eitthvað sem væri reynandi að lýsa með orðum, þótt fallvölt séu og hitti
sjaldnast alveg í mark þegar lýsa skal einhverju nýju og áður óþekktu. Það voru
umbrotatímar í ljóðheimum þegar fyrsta ljóðabók Hannesar birtist, hið gamla,
hefðbundna ljóðform landnámsaldarinnar með stuðlum og höfuðstöfum og
rími, ýmist hendingarími eða endarími, stóð andspænis ófeimnu og baráttu
glöðu formleysi nýrra ljóða sem líkt og flest annað drógu dám af atómsprengj
unni og þáðu nafn sitt af henni. Þetta voru tímar hins kalda stríðs, sem lagði
herfjötur á hugsun milljóna, tími Kóreustríðsins, tími járntjalds og tortryggni
og skammt í uppreisnina í Ungverjalandi, Berlínarmúrinn og Víetnamstríðið.
Alls þessa gætti að sjálfsögðu í þeim ljóðum sem skáldin ortu, hvort sem þau
rímuðu eða ortu atómljóð, skáldum hefur alltaf gengið illa að slíta sig úr
tengslum við sinn tíma, þótt tíminn „tengist“ misjafnlega við þau.
Mitt í þessum umbrotum öllum kvaddi Hannes Pétursson sér hljóðs
og rödd hans var öðruvísi, „í rödd hans var ofið þeim kyrrlátu kvöldum á
vorin“. Að þar fór skáld friðarins en ekki baráttunnar var öllum ljóst, þótt ekki
allir teldu honum það til gildis. Að hjá honum fór saman víður sjóndeild
arhringur og þekking á ljóðum erlendra skálda, einkum þýskra, og vald á
rammíslenskum brag var einnig lýðum ljóst. Og þetta tvennt hagnýtti hann sér
í einhverja athyglisverðustu formnýjung í íslenskum ljóðum á 20. öld. Sama ár
og Kvæðabók kom út kom Sjödægra Jóhannesar úr Kötlum. Það er gaman að
skoða þessar bækur samtímis, því þær eiga nákvæmlega ekkert sameiginlegt
nema að vera báðar ljóðabækur. Þá er Jóhannes þegar orðinn „grand old man“
í íslenskri ljóðagerð en það er uppreisnin og byltingin sem brennur honum í
blóði og ljóði, formi ljóðsins skal bylt en ekki breytt, rímstagl rímþjóðarinnar
er tákn um ófrelsi hennar og baráttu við kúgun og fátækt: