Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Page 121
B ó k m e n n t i r
TMM 2007 · 2 121
Því rýrari verður í aski
því dýrari háttur á tungu:
við neistann frá eddunnar glóð
hún smíðaði lykil úr hlekknum.
Loks opnaðist veröldin mikla
og huldan steig frjáls út úr dalnum
– þá sökk hennar rím eins og steinn
með okinu niður í hafið.
Hvort þessi vængjuðu orð Jóhannesar voru boðskapur eða spásögn skal ósagt
hér, en víst er að þrátt fyrir frelsi huldunnar og opnun veraldarinnar miklu er
rímið ekki sokkið enn.
Mér telst svo til að frumortar ljóðabækur Hannesar Péturssonar séu
nú við útkomu Fyrir kvölddyrum orðnar ellefu talsins (prósaljóðabókinni
Ljóðabréf er sleppt í upptalningu fremst í nýju bókinni), auk ljóðasafna og
ljóðaúrvals, þýddra ljóða, smásagnasafns, skáldsögu, fræðibóka og þjóðlegs
fróðleiks. Og það er athyglisvert að lesa þessar bækur saman, rekja þá þróun
eða framvindu sem þar er, glímu skáldsins við formnýjungar, við hugmyndir
samtíðar sinnar, tryggð við bláa dali heimabyggðarinnar í norðri, tryggð við
eigin rætur og ræturnar sem næra ljóðið. Hannes hefur gert ýmsar og merki
legar tilraunir til að losa sig undan hefð eddunnar, uppruna hins íslenska ljóðs,
prófar að „sökkva ríminu,“ en einkenni hins íslenska brags skjóta alltaf upp
kollinum á ný. Sem betur fer, því fáir, ef nokkrir, hafa farið betur með þessa
erfðagripi eða hagnýtt sér þá til að setja fram hugsun á listrænan hátt.
Ég kalla þessa tilraun mína til umsagnar „Aldasöng,“ og vitna þar til
eins merkasta kvæðis frá því um 1600, þar sem Bjarni Jónsson Borgfirðinga
skáld gerir upp að kvöldi við sinn ævidag. Hannes Pétursson er hér að gera
svipaðan hlut, hann stendur fyrir kvölddyrum og allir vita hvað bíður handan
þeirra dyra. Í bókinni eru alls 52 sjálfstæð ljóð án heitis og þau kallast öll á
einhvern hátt á við fyrri ljóð hans, skáldið horfir til baka líkt og Bjarni í Alda
söng, þó án beiskju eða vandlætingar. Garður er algeng sviðssetning í eldri
ljóðum Hannesar:
Þau ganga hægt í gegnum
garðinn hjá ánni.
Næturregn
við opinn glugga féll á fölvan garð.
Þú leiddir mig í stóran grænan garð.
Úr greinum þungum héngu aldin rauð …
Og í Fyrir kvölddyrum er ljóðsegjandi enn staddur í garði: