Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Side 128
B ó k m e n n t i r
128 TMM 2007 · 2
af „ruglinginum“ og nokkurt gagn, enda gefur hann höfundinum færi á að
endurvekja umræðu um gamlar skáldsögur (sem ég er þátttakandi í í þessum
skrifuðu orðum). Fangamark persónunnar vísar beint í fyrstu persónu for
nafnið, EG, og persónan er kölluð „Egill spegill“ að minnsta kosti tvisvar í
Nautnastuldi. Margt eiga þeir höfundur og persóna hans sameiginlegt; báðir
eru frá Ísafirði og eins og fram er komið stunduðu þeir báðir nám við sama
háskólann í Bandaríkjum, báðir eru þeir höfundar að skáldsögu sem heitir
Nautnastuldur – og vafalaust mætti tiltaka fleiri atriði. Til að kóróna þetta
mætti líka benda á að Rúnar Helgi skrifar á bókmenntavef Borgarbókasafnsins
að það sé „hlutskipti rithöfundarins að úthverfa sér til að aðrir fái séð það sem
býr innra með honum“.2Mér finnst þó ástæða til að taka fram að það sem hér
fer á eftir á aðeins við sögupersónuna Egil Grímsson og fókusinn er á síðari bók
Rúnars Helga um hann, Feigðarflan.
Í Feigðarflani hittir lesandinn sem sagt fyrir aftur títtnefndan Egil Gríms
son, þann amlóða sem drattaðist áfram í þunglyndi og framtaksleysi lengst af
sögu í Nautnastuldi. Eins og höfundur vakti athygli á í áðurnefndri grein hlaut
Nautnastuldur fína umsögn hjá bókmenntafræðingnum Matthíasi Viðari
Sæmundssyni sem meðal annars taldi hana vera „tímanna tákn“ og einlæga og
alvarlega tilraun til að lýsa „samtímareynslu okkar – vanda sem ekki verður
lýst til hlítar nema í skáldskap“.3 Ekki hvarflar að mér að mótmæla þessari
greiningu míns góða kennara Matthíasar Viðars enda hefur þessi karlpersónu
gerð – nútíma amlóðinn – verið afar áberandi í íslenskum samtímabókmennt
um á síðastliðnum fimmtán árum eða svo; nægir eflaust í því sambandi að
nefna skáldsögur á borð við 101 Reykjavík og Rokland eftir Hallgrím Helgason
og Storm eftir Einar Kárason, og frá síðasta ári má benda á Sendiherrann eftir
Braga Ólafsson og Skuldadaga eftir Jökul Valsson. Þetta eru sögur af karl
mönnum sem mæta illa þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar í nútímasam
félagi; vanhæfum karlmönnum sem gjarnan (en þó ekki alltaf) farnast illa í
samskiptum sínum við mun hæfari kvenmenn. Ef út í það er farið þá er þetta
þema einnig mjög áberandi í erlendum samtímabókmenntum, jafnt norræn
um, evrópskum og engilsaxneskum, og kannski ekki síst í sjónvarpsþáttum –
og þá einna helst í bandarískum „sitcom“ seríum þar sem hver aulinn á fætur
öðrum verður undir í grátbroslegum samskiptum við fagrar og snjallar konur
sínar. Hér verður látið liggja á milli hluta hvaða ályktanir megi draga af þessu
um samtíma okkar en kastljósinu aftur beint að Feigðarflani.
Í upphafi bókar mætum við aftur Agli Grímssyni sem nú býr með banda
rískri eiginkonu sinni, sálfræðingnum Jane, og tveimur börnum í Reykjavík, er
„búinn að gera upp fortíðina, ástina og draumana“ (6) og hefur ákveðið að
binda endi á líf sitt. Hann kemur börnunum í skólann og heldur síðan sem leið
liggur akandi út úr bænum í þeim tilgangi að finna hentugan stað til að deyja
á. Ósjálfrátt ekur hann norðurleiðina, í átt að æskuslóðunum enda verður
honum fljótt ljóst að það er ómögulegt að deyja á stað sem maður tengist ekki
hót. Feigðarflan er því saga sem gerist að mestu á vegum úti og eins og vera ber
í slíkum sögum lendir Egill í ýmsum ævintýrum á leiðinni. Hann kemst í