Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Page 132
B ó k m e n n t i r
132 TMM 2007 · 2
um heimi sem knýr hann áfram, rétt eins og Gunnar. Hann er á höttunum eftir
hlutverki í heimi sem er miklu stærri og ógnarlegri en túnbletturinn á Hala.
Hann verður rithöfundur, guðspekingur, sósíalisti, esperantisti og komm
únisti. Í Bréfi til Láru ræðst hann harkalega að bændasamfélaginu en víkur þó
hvergi illu að bernskuheimili sínu. Honum virðist fljótlega hafa orðið ljóst að
lífið er enginn leikur að stráum.
Þórbergur og Gunnar fæddust báðir inn í heim sem var að gleymast í hraðri
framvindu tímans. Þeir urðu að stíga milli skipa til þess að gefa lífi sínu gildi
og þrá þeirra eftir merkingarríku lífi var sterk. Menntun og ritstörf voru nán
ast eina færa leiðin inn í nýjan heim. Eitt af því sem lesendur gætu furðað sig á
í þessari bók er það hve viðkvæmir þessir tveir baráttujaxlar voru fyrir sjálfum
sér og ritverkum sínum og hve fjandsamlegir lesendur og útgefendur eru rit
höfundum, nema þegar best gengur. Þegar það er haft í huga verður skiljan
legra hve mikið þeir lögðu undir.
Ástin og kynlífið
Eitt af því sem áreiðanlega kemur mörgum lesendum á óvart er frásögnin af
ástamálum þeirra Gunnars og Þórbergs. Það var vitað um sambönd þeirra við
konur en lýsing Halldórs Guðmundssonar í Skáldalífi er ítarleg frásögn þrosk
aðs manns sem ekki fellir siðferðilega sleggjudóma heldur reynir að skilja og
sýna hvað á seyði er. Framhjáhald hins dyggðum prýdda og siðláta Gunnars
Gunnarssonar er íhugunarvert á margan hátt. Ég held að óhætt sé að taka
undir það álit Halldórs að Íslendingar hafi ekki séð Gunnar fyrir sér sem
ástríðufullan mann. Þá er að sjálfsögðu verið að vísa til ástamála en ekki að tala
um ástríðuna til að verða rithöfundur. Ástkona Gunnars hét Ruth Lange og
samband þeirra hófst að líkindum áður en hún skildi við mann sinn Tom
Kristensen, sem var frægur danskur rithöfundur. Heimildir um þetta eru fyrst
og fremst í bréfum sem Ruth skrifaði frænku sinni og vinkonu Rigmor Thor.
Af þeim virðist mega ráða að ástarsamband þeirra hafi verið heitt og sterkt.
Ekki eru til bréf frá Gunnari en hann virðist hafa reynt að hafa Ruth með sér á
flestum ferðalögum sínum og hjá sér þegar hann dvaldi að heiman við skriftir.
Hann hefur greinilega oft verið henni erfiður en ástin samt aldrei gripið hana
jafn sterkum tökum og í sambandinu við Gunnar.
Gunnar sagði Franziscu frá sambandi sínu við Ruth á sama tíma og hann var
að lýsa ódauðlegri ást og tryggð þeirra Ugga og Selju í lokabók Fjallkirkjunnar.
Árið eftir varð Ruth svo ólétt eftir Gunnar og saman eignuðust þau soninn
Grím. Sagan segir að hann hafi fæðst í eldhúsinu á Fredsholm og Franzisca
hjálpað til við fæðinguna.
Engar heimildir eru til um viðbrögð Franziscu en hún hélt heimili sínu og
hjónabandi saman, hvernig sem hún fór að því. Auðvitað liggur nærri að segja
að Franzisca hafi verið í móðurhlutverki í lífi skáldsins en Ruth í hlutverki
ástkonunnar. Ruth Lange virðist reyndar hverfa út úr lífi Gunnars eftir að hún
hefur alið honum son. Margt hefur verið um það sagt hvernig karlmenn hafa