Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 25
TMM 2008 · 3 25
A f s k r i f t i r
Stuttu síðar sá ég hvar unnusta mín skaut sér glæfralega yfir Tryggva-
götuna milli tveggja aðvífandi bifreiða til fundar við mig, og sveiflaði nú
sítrónugulri plastkörfu. Annað hafði hún ekki keypt, en reyndist him-
inlifandi með körfuna. Mér þótti nú ekki mikið til hennar koma en
ákvað að hreyfa ekki við andmælum. Spurði hvað hún hefði kostað –
þrjúhundruð krónur íslenskar, og tilvalin á Santa Caterina–markaðinn,
svaraði unnusta mín hæstánægð.
Ég kom Hannesi og öðrum innkaupum dagsins fyrir í körfunni og sá
að hinn heiðguli litur bókarkápunnar féll saman við grófa plastmöskv-
ana svo vart mátti á milli sjá.
Að þessum innkaupum loknum sammæltumst við um að erindum
okkar niðri í miðbæ þennan hrollkalda vetrardag væri lokið og tókum
hraðstíg stefnuna á heimili foreldra minna vestur í bæ.
Að kvöldi þessa sama dags sökkti ég mér niður í heitt og gott bað. Leið-
indahrollur sat í mér eftir miðbæjarrápið fyrr um daginn, og svo iðaði
ég skinninu að byrja á Ljóðabréfunum í funheitu og róandi saltbaði.
Þegar ég hugðist fletta á öftustu síðu bókarinnar, eins og minn er vandi,
vildi þó ekki betur til en svo að bókin hraut úr höndum mér og skall á
vatnsyfirborðinu. Ég var snöggur að fiska hana upp, áður en rjúkandi
baðvatnið gleypti hana með öllu, en skaðinn var skeður.
Móðir mín stóð við baðvaskinn og strauk framan úr sér málningu
dagsins þegar óhappið vildi til. Hún reyndi hvað hún gat að þerra síður
bókarinnar fyrir mig, en þykkur pappírinn gekk þegar í bylgjum.
„Þetta hefur aldrei hent mig áður,“ sagði ég hissa. Því eins þótt ég hafi
stundað baðlestur um árabil, þá hefur sá klaufaskapur aldrei hent mig
að glopra lesefninu úr höndum mér með þessum hætti. Og hafa þó flest-
ar bókanna vegið þyngra í hönd en sagnakver Hannesar.
„Hvað ætli það merki?“ spurði móðir mín. Hún hafði lagt bókina á
ofninn til þerris, og við blámálaðan baðherbergisvegginn bar hana nú
líkt og heiðgula tjaldbúð við himin.
„Það er nú það“ svaraði ég. Ég var hreint ekki viss.
Er arkirnar höfðu þornað, og Hannes bólgnað út sem því nam, lagði
ég bókina á straubretti fjölskyldunnar og hófst handa við að stífpressa
hverja síðu. Eitthvað mynduðust foreldrar mínir við að henda gaman að
aðförum sonarins með straujárnið, sögðu ljóst að þetta heimilistæki
væri höndum mínum framandi. Þó gekk mér ágætlega að ná mestu
bylgjunum úr pappírnum, og skeytti lítt um þótt ljóðabréfin gulnuðu
örlítið fyrir vikið enda bókfellið þegar gult nokkuð.
Svo illa hafði rakinn þó leikið hið afskrifaða eintak, að sjálft harð-