Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 70
70 TMM 2008 · 3
Ú l f h i l d u r D a g s d ó t t i r
búinn til kvarði til að mæla meginþætti og temu bókarinnar. Í bók Ing-
ólfs eru einnig dæmi um ljóð sem halla sér að öðrum ljóðum, ljóð
Jóhanns Sigurjónssonar, „Sofðu unga ástin mín“, gengur ljósum logum
um bókina, Steinn Steinarr er líka áberandi (líkt og hjá Eiríki Erni) og
auk skálda má nefna mjög fyndna úrklippu úr lýsingu frá ráðningar-
fyrirtækinu Capacent á persónuleikaprófi í ljóðinu „Hreinleikapróf“.
Þessi notkun á tilvitnunum og textum annarra er nokkuð frábrugðin
því sem nú er orðið að hefðbundnu skáldskaparmáli póstmódernism-
ans, þó að grunnstefin um sjálfsmeðvitund og áköll til annarra bók-
mennta séu þau sömu. Hér er gengið lengra og tilgangurinn virðist
annar – ekki endilega sá að kalla fram samspil við bókmenntasöguna og
tiltekin verk heldur mætti sjá þetta sem ákveðna tilraun til andhverfu,
enn og aftur gegn fagurfræði hins ,ljóðræna‘. Augljóslega hlýtur öll and-
spyrna gegn fagurfræði ævinlega að hverfast í það að verða að nýrri
fagurfræði, líkt og er nú orðið áberandi í verkum sumra Nýhil skálda;
þegar skáldleikanum er hafnað svo ákaft verður einfaldlega til nýr
skáldleiki. Í heildina séð er bók Ingólfs Gíslasonar vel heppnað dæmi
um þessa nýju ljóðrænu. Vissulega tapar höfundur sér í stælum annað
slagið (fyrrnefnd ljóð um mælikvarða á ljóðin eru dæmi um það), en
meirihluti ljóðanna er áhugaverður, fyndinn og á stundum bráðsnjall.
Margar af formtilraununum heppnast vel, eins og krossaprófin og skoð-
anakannanirnar, og stefin með hausunum tveimur skapa áhugaverðan
takt innan bókarinnar.
Þungbúin ljóð
Hversdagsleikinn hefur undanfarin ár verið nokkuð einkennandi við-
fangsefni í ljóðum, líkt og reyndar í myndlist. Segja má að þessu sé að
einhverju leyti stefnt gegn hugmyndinni um skáldleika, með tilheyr-
andi upphafningu ljóðsins, en slíkri fylgir jafnframt tilfinning fyrir
fjarlægð. Þannig er hinu smáa og venjulega teflt fram í stað þess ofur-
táknræna og ógagnsæja. Þessi ljóð taka á stundum á sig mínímanlískt,
jafnvel persónulegt, form sem hefur, ranglega, verið álitið helsta ein-
kenni nútímaljóða.3 Ef marka má útgáfu síðasta árs falla vissulega
nokkrar bækur í þennan flokk, en þær eru engan veginn í meirihluta.
Þetta eru til dæmis Nóvembernætur Eyglóar Idu Gunnarsdóttur, Hlaup-
ár Þórs Stefánssonar, sem er nokkuð skemmtilegt hækusafn, Þræðir
Ingu Guðmundsdóttur, Enn sefur vatnið Valdimars Tómassonar, Fingur
þínir og myrkrið Gunnars Randverssonar og Vofur hversdagsins eftir
Hallberg Hallmundsson. Af þessum er sú síðastnefnda eftirminnilegust,