Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 75
TMM 2008 · 3 75
L j ó ð o g f l ó ð
að fá að deyja, umkringd börnum sínum, og í þessum lipra prósa teikn-
ar Ari frábæra skyndimynd af aðstandendum, ólíkum viðbrögðum
þeirra og væntingum. Líkaminn rennur saman við ljóðmálið í „Stofu 4“,
en sjúklingurinn þar hefur hlotið heilaskaða: „Blóðtappi lokaði spjall-
rásinni í síðustu viku.“ Ljóðið „Blóðgjöf“ undirstrikar þessa undarlegu
stemningu milli lífs og dauða, þar fær myndmál hins bleika hests feigð-
arinnar alveg nýtt líf í samhengi við blóðgjafir til krabbameinssjúklings
sem hefur skilið „allt eftir / skröltandi traktor við morgunslátt / hringað
skott, fáksaugu / fjallskilahaustin, vetrarþil“ og gengið „í hvítan / hamar
á hringbraut / kringum líf og dauða“. Í staðinn fyrir að yrkja landið hafa
æxli tekið líkamann yfir, „krabbameinið nemur lönd“, „en morfínferjan
siglir / ótal ferðir á sólarhring“. Að lokum biður sjúklingurinn um þrjá
poka af blóði í nesti fyrir síðustu leitir og „á hlaðinu stendur bleikur
hestur / og krafsar í hélaðan septembermorgun“. Hér er feigðin í formi
hestsins ekki óljós tilfinning rómantísks ljóðmælanda, heldur áþreif-
anlegur ágengur sjúkdómur sem dregur ljóðmælanda til dauða hægt og
rólega í gegnum ljóðið.
ii
Ljóðin eru felld inn í myndir í Einyrkju Hörpu Björnsdóttur, en hún er
einnig þekkt sem myndlistarkona. Einar Örn Benediktsson er ekki
þekktur sem slíkur en þó hefur hann gert myndir á bækur Braga Ólafs-
sonar, og í Mátunarklefanum og aðrar myndir eru myndir hans jafnhliða
ljóðum Braga. Teikningarnar falla vel að hugarheimi Braga sem varpar
skuggamyndum í textaformi á sínar síður. Fyrir utan manninn í mát-
unarklefanum upplifir lesandi samfellu hljóðs og myndar eins og þegar
að lokum tekst að festa hringjandi síma á mynd.
Titillinn á Sjónvillum Óskars Árna Óskarssonar vísar til hins sjón-
ræna, en bókin samanstendur af örstuttum samtölum. Þau eru þó mörg
hver sérlega myndræn, til dæmis spjallið við manninn með álftina sem
reynist vera gangandi skúlptúr.
Bók Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur, Fjallvegir í Reykjavík, er líka
ákaflega myndræn. Í prósum sem ramba á mörkum hins hversdagslega
og hins ævintýralega dregur Sigurlín upp alveg nýja sýn á bílaborgina
Reykjavík. Eins og titillinn ber með sér lýsa prósarnir einfaldlega fjall-
vegum í Reykjavík, götum sem eru á einhvern hátt afmarkaðar – eða
markaðar – af fjöllum. Keilir botnar Suðurgötuna, Esjan drottnar yfir
Sæbrautinni meðan Akrafjall spannar Eiðsgrandann, en þar býr skess-
an Jóka. Þannig upplifir lesandi Reykjavík skyndilega í næsta húsi við