Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 124
124 TMM 2008 · 3
B ó k m e n n t i r
Tilvísanir
1 Kittang/Aarseth. 2001. s. 78. Lyriske strukturer. Innføring i diktanalyse. 4. utgave
– revidert og utvidet. Universitetsforlaget. Oslo
Ása Helga Hjörleifsdóttir
Lífróður orðanna
Jón Kalman Stefánsson: Himnaríki og helvíti. Bjartur 2007.
Fjöllin gnæfa yfir lífi og dauða og þessum húsum sem þjappa sér saman á eyr-
inni. Við búum á botni skálar, dagurinn líður, það kvöldar, hún fyllist með hægð
af myrkri og þá kvikna stjörnurnar.1
Undiraldan er þung í nýjasta sköpunarverki Jóns Kalmans Stefánssonar,
Himnaríki og helvíti, en strax á fyrstu síðum er seiðandi feigðartónninn sleg-
inn. Í upphafi er orðið; eða öllu heldur orðin sem vilja hreyfa við örlögunum;
vekja hina dauðu með því að segja sögu þeirra sem myndu annars gleymast. Og
sögumaðurinn er ekki einn, heldur er hann í dularfullri fleirtölu – það eru
„við“ sem segjum söguna; og þessir við eru „næstum því myrkur“. Við eru
hinir framliðnu sem reika um jörð okkar nútímamanna í leit að hugarró og
tilgangi. „Tilgangur, er það bláminn sem við snertum aldrei?“ (96). Tilgang og
líf er hugsanlega að finna í lífi annarra, sem og í skáldskapnum; í sögum af
þeim sem voru samferða manni um lífið, og þessir sögumenn segja okkur sög-
una af strák einum í verbúð vestur á fjörðum fyrir meira en 100 árum.
Þessir við eru ekki síður orðin sjálf, og eins og verður reifað í þessari umfjöll-
un er efni bókarinnar ekki síst efniviðurinn sjálfur; orðin. Máttur orðanna
sem og óumflýjanlegur vanmáttur þeirra andspænis ægivaldi lífsins. Þau gefa
manni allt; en um leið ekkert. Þau eru kröftug sem hafið en á sama tíma full-
komlega máttlaus. Orðin og skáldskapurinn veita manni styrk, fylla mann af
nánast áþreifanlegri þrá; gefa lífi manns merkingu, en á næsta andartaki er
máttur orðanna horfinn; og maður er skilinn einn eftir til að velkjast um á
lífsins ólgusjó. Skáldskapur breytist í orðin tóm. „Skáldskapurinn er eins og
hafið og hafið er myrkt og djúpt“ (190). En á undan sögunni af stráknum, á
undan orðunum sjálfum, er það yfirþyrmandi náttúran sem slær tóninn. Fjöll-
in og hafið hefja söguna.
Sjórinn á aðra hönd, brött og himinhá fjöll á hina; þarna er saga okkar eiginlega
öll komin. Yfirvöld, kaupmenn ráða kannski yfir fátæklegum dögum okkar, en